Innlent

Veðurstofan varar við miklum vatnavöxtum

Birgir Olgeirsson skrifar
Einkum er varað við vatnavöxtum í kringum fjöll og jökla.
Einkum er varað við vatnavöxtum í kringum fjöll og jökla. Vísir/Vilhelm
Veðurstofan varar við miklum vatnavöxtum og jafnvel flóðum á Suðausturlandi, eða allt frá Eyjafjallajökli í vestri og til Seyðisfjarðar í austri. Reiknað er með að þar hefjist slagveðurs rigning í kvöld og standi með litlum hléum  til sunnudagskvölds.

Veður fer hlýnandi þannig að saman fara bráðnun og mikil úrkoma og nú þegar er mikið eða jafnvel mjög mikið rennsli í ýmsum ám á svæðinu miðað við árstíma samkvæmt vatnsmælum Veðurstofunnar.

Einkum er varað við vatnavöxtum í kringum fjöll og jökla eða í suðursveit á Mýrum og í Lóni og hvetur Veðurstofan fólk til að kynna sér aðstæður áður en það fer um þessar slóðir.

Upp úr hádegi verður vaxandi suðaustanátt og verður versta veðrið á Reykjavíkursvæðinu frá klukkan fjögur og til sjö í kvöld. Verður umtalsverð rigning og á meðalvindhraði á bilinu 18 – 25 metrar á sekúndu.

Suðaustan stormurinn skellur á norðan- og austanvert landið um kvöldmatarleytið og gengur yfir á þremur til fjórum klukkutímum. Hægari vindur í nótt en verður áfram hvasst á landinu á morgun.

Næsta lægð gengur yfir aðfaranótt sunnudags en henni mun væntanlega fylgja snjókoma á höfuðborgarsvæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×