„Við erum að normalísera eiturlyf hægri vinstri. Það er umræða um lögleiðingu, það er umræða um tapað stríð, það er umræða um að það sé hallærislegt að við séum ekki búin að leyfa það og það geta salarnir og innflytjendur nýtt sér gagnvart venjulegu fólki. Samt sem áður held ég að venjulegt fólk sé ekki mikið að fara út [sem burðardýr], það eru þá einhver vandræði sem eru að toga fólkið út í þennan heim,“ sagði Magnús í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
Hann sagði jafnframt að það þyrfti að hugarfarsbreytingu gagnvart ólöglegum hlutum.
„Þegar heildarmyndin er skoðuð þá er það ekki lausn að leyfa ólöglega hluti sem eru skaðlegar fyrir ungmenni þegar allar rannsóknir benda á að auðveldara aðgengi að ólöglegum og hættulegum efnum það eykst við lögleiðingu og normalíseringu. Og það er hættan sem við stöndum frammi fyrir núna, þessi normalísering í umræðunni. Við verðum að senda skýr skilaboð til ungmennanna, til fjölskyldunnar til fólks sem er ekki að hugsa um þetta dags daglega,“ sagði Magnús.
Einnig var rætt við Ólaf Helga Kjartansson, lögreglustjóra á Suðurnesjum, í Bítinu í tengslum við frásögn viðmælanda í Burðardýrum. Hann sagði þáttinn hafa verið sláandi.
„Það sem sló mig auðvitað mest þó að það hafi kannski ekki komið mér fullkomlega á óvart er hversu óskaplega ósvífnir menn eru í þessum innflutningi,“ sagði Ólafur Helgi.
Aðspurður hvort að þátturinn hafi verið raunveruleg lýsing á fíkniefnaheiminum sagði lögreglustjórinn:
„Við skulum orða það þannig að þó maður hafi haft grunsemdir um hvernig hlutirnir væru gerðir og annað slíkt þá var þetta mjög ýkt miðað við hugmyndirnar sem maður hafði fram að þessu en þó ekki þannig að mér hafi brugðið svo mikið að segja þetta getur ekki verið.“
Hann segir að styrkja þurfi lögregluna og tollgæslu og minntist einnig á breytt hugarfar.
„Svo þarf að breyta ákveðnu hugarfari meðal þjóðarinnar þannig að menn líti ekki á það sem sjálfsagðan hlut að fíkniefnaneysla, hvort sem það eru unglingar eða aðrir sé bara eitthvað sem tíðkast. Hugsunarhátturinn hjá okkur þarf að breytast mjög mikið. Við þurfum líka að gera okkur grein fyrir því að aðalatriðið í sambandi við þetta stríð, eins og þú orðaðir það er að við höfum mannskap sem getur greint hvað er að gerast,“ sagði Ólafur Helgi.