Innlent

Hvasst en milt næstu daga

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Það mun viðra ágætlega til ljósmyndunar næstu daga.
Það mun viðra ágætlega til ljósmyndunar næstu daga. VÍSIR/EYÞÓR
Gera má ráð fyrir allhvössum eða hvössum vindi í dag. Þannig má ætla að hviður undir Hafnarfjalli nái 35 til 40 m/s, ekki síður norðan við fjallið. Eins verður byljótt á Snæfellsnesi. Þá tekur ekki að lægja að gagni fyrr en síðdegis og í kvöld á Snæfellsnesi.

Gular viðvaranir taka gildi fyrir Faxaflóa og Breiðafjörð síðar í dag og eru vegfarendur beðnir um að fara varlega.

Þrátt fyrir það verður veður milt að sögn Veðurstofunnar þó að vindinum gæti fylgt væta af og til á vestanverðu landinu.

Vindur verður þó hægari á austanverðu landinu og enn hægari á morgun. Annars er „svipað“ veður í kortunum næstu daga. Hitinn verður á bilinu 2 til 10 stig í dag og hlýjast nyrst.

Það kólnar smám saman á landinu á miðvikudag og gera spár ráð fyrir að það geti snjóað dálítil norðvestantil á landinu. 

Síðan er að sjá að norðaustanáttin taki yfirhöndina með éljum fyrir norðan og austan og frysti um allt land.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag:

Suðaustlæg átt, 5-13 m/s og lítilsháttar væta á V-verðu landinu, skýjað með S-ströndinni, en annars hægviðri og léttskýjað. Hiti 3 til 8 stig.

Á miðvikudag:

Hægsuðlæg eða breytileg átt og skýjað með köflum, en snjómugga eða slydda með köflum NV-til og kólnar í veðri.

Á fimmtudag:

Norðaustanátt og víða dálítil snjókoma eða él, en léttir til V-lands síðdegis. Hiti kringum frostmark.

Á föstudag, laugardag og sunnudag:

Útlit fyrir ákveðna norðaustanátt með éljum, en bjartviðri S- og V-lands. Frost um allt land.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×