Innlent

Gul viðvörun vegna hvassviðris og snjókomu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Varað er við því að aksturskilyrði geti orðið erfið vegna snjókomu og hvassviðris.
Varað er við því að aksturskilyrði geti orðið erfið vegna snjókomu og hvassviðris. vísir/vilhelm
Gul viðvörun Veðurstofu Íslands gildir fyrir Suður-og Suðausturland í kvöld og nótt. Varað er við allri hvassri norðaustanátt og snjókomu í þessum landshlutum og erfiðum akstursskilyrðum.

Viðvörunin hefur þegar tekið gildi á Suðausturlandi og gildir þar til klukkan hálfþrjú í nótt. Á Suðurlandi tekur viðvörunin gildi klukkan ellefu í kvöld og gildir til klukkan fimm í fyrramálið.

Veðurhorfur á landinu í dag og næstu daga eru annars þessar:

Norðan og norðaustan 10-15 m/s, en 15-20 í vindstrengjum suðaustantil á landinu fram á nótt. Bjartviðri sunnan heiða, en él norðan- og austanlands. Samfelld snjókoma um tíma á Suðausturlandi og á Suðurlandi um og eftir miðnætti.

Dregur úr vindi á morgun, norðaustan 5-13 síðdegis. Lítilsháttar él fyrir norðan og austan, en bjart syðra.

Frost 0 til 7 stig, minnst syðst.

Á miðvikudag:

Norðaustan 8-13 og dálítil él, en yfirleitt léttskýjað sunnan heiða. Frost 1 til 7 stig.

Á fimmtudag:

Norðan 8-13 og él norðaustan- og austanlands. Hægari austlæg átt og léttskýjað um landið sunnan- og vestanvert. Áfram kalt í veðri.

Á föstudag og laugardag:

Suðvestan 5-13 vestantil á landinu, skýjað og dálítil snjókoma vestantil. Hægari breytileg átt annars staðar og víða bjart. Hiti breytist lítið.

Á sunnudag:

Líklega norðlæg átt með éljum fyrir norðan og austan, en bjart syðra. Kalt áfram.

Færð og aðstæður á vegum:

Vegir eru að heita má greiðfærir á Suður- og Suðvesturlandi en hálkublettir eru á köflum á Snæfellsnesi og í Dölum, raunar hálka á Svínadal.

Hálkublettir, hálka eða snjóþekja er á vegum á Vestfjörðum. Þar er vaxandi éljagangur og hefur bætt í vind svo að sums staðar er nokkuð blint. Þæfingsfærð er á Steingrímsfjarðarheiði og þjónustu lokið.

Hálka er óveruleg á Norðurlandi vestra en frá Eyjafirði og austur á Austurland og Austfirði er víðast hvar hálka eða snjóþekja og allvíða éljagangur og skafrenningur.

Á Suðausturlandi eru vegir mikið auðir en sums stðarar hefur borið á sandfoki.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×