Skoðun

Keli þjófur

Guðmundur Brynjólfsson skrifar
Keli Kela komst með brögðum inn í Landssamband bakarameistara. Alkunna er að hann tók ófrjálsri hendi uppskrift að sandköku sem hinn grandvari og vandaði kökugerðarmaður Nói Briem átti og hafði þróað í áratugi. Þessa sandkökuuppskrift lagði Keli fram sem sína og kláraði þannig Iðnskólann með bravúr. Reyndar var útskrift hans flautuð af á síðustu stundu og Keli kallaður fram á klósett­ – það var jú verið að nota salinn – og honum kynntar niðurstöður úr greiningu á deiginu og samanburður á uppskriftunum, hans og Nóa Briem. Þær reyndust eins.

Nú voru góð ráð dýr. Keli þykir vel ættaður ef allt er lagt saman, bæði skylt og óskylt, og því ótækt að hleypa honum ekki inn í fagið. Verandi af ætt hvar bakari hefur tekið við af bakara í áratugi; eða frá því Keli kardó laðaðist að greininni úti í Kaupmannahöfn árið 1811 – árið sem hinn frægi kardimommudropaskortur kom upp við Eyrarsund.

Keli Kela fékk nú að baka sig inn í stéttina – með skilyrðum; hann varð að leiðrétta „Piparkökusönginn“ fræga og baka, vegna sinnar innréttingar, tvöfalda uppskrift, eftir hinni ljóðrænu leiðsögn Hérastubbs bakara. Þetta réð „okkar“ maður við. Án sjálftekinnar hjálpar.

En nú er allt í uppnámi. Keli rífur sig ofan í rassgat og vill fá að ráða því hvaða bakarameistarar skuli skipa dómnefnd næst þegar Landsambandið stendur fyrir samkeppninni um „Köku ársins“. Frekjan og oflátungshátturinn í Kela eru takmarkalaus. Hann hnoðar og hrærir saman alls konar rök, óstöðvandi í óbilgirni sinni, og derringurinn sáldrast af honum eins og flórsykur. Gárungar í bakarastétt sendu honum afskurð af sandköku í pósti.

En, hann skildi ekki sneiðina.




Skoðun

Sjá meira


×