Ingvi Hrannar kennsluráðgjafi hjá sveitarfélaginu Skagafirði segir að samræmd próf séu hamlandi fyrir skólaþróun og bendir á níu ástæður fyrir því að leggja samræmd próf niður.
„Þetta er að láta kennara halda í hluti sem eru lítið tengdir inn í aðalnámskrá grunnskólanna. Ef þú tekur enska hlutann af aðalnámskrá grunnskóla þá heitir ekki einn kafli málfræði, en samt er prófið að stórum hluta málfræði. Það er ástæða fyrir því að þetta heitir tungumál, þetta gerist í munninum á okkur. Aðalástæðan fyrir því er að læra nýtt tungumál er að geta talað það. Það sem er mælt á prófinu er svo lítill hluti af því sem á að kenna í skólunum. Svo eru skólar og kennarar bornir saman og metnir út frá þessum örfáu atriðum á mjög þröngu sviði. Þá taka kennarar meiri tíma í það að undirbúa þig undir próf,“ segir Ingvi Hrannar.
Segir hlutverk kennara ekki vera að búa nemendur undir próf
Ingvi bendir á að hlutverk kennara sé ekki einungis að búa nemendur undir próf. „Okkar hlutverk sem kennarar er ekki að undirbúa þig undir próf heldur að undirbúa þig undir líf og störf í lýðræðisríki. Að þú getir talað ensku og talað íslensku og skilið og endursagt og lagt skilning í hluti. Samræmd próf gefa sumum kennurum og skólum leyfi á að kenna eins og árið sé 1950 og það sé ekki búið að finna upp internetið,“ bendir Ingvi á.
Vill gefa kennurum ráðrúm til þess að leggja prófin fyrir á sínum forsendum
Ingvi vill gefa kennurum frjálsar hendur með fyrirlögn samræmdra prófa.„Mín millilausn væri sú að þeir myndu halda áfram að gefa út samræmd próf, það myndi koma út samræmt próf bara í mars fyrir 2018. Við kennarar ráðum hverjir taka það og ráðum fyrir hvern við leggjum það. Við megum leggja það fyrir hvern sem er og hvenær sem er og við fáum niðurstöðurnar. Þannig að ég get lagt það fyrir nemenda í 8.bekk. Síðan þegar þessi nemandi kemur í 9.bekk tekur hann 2019 prófið. Niðurstöðurnar fara ekki til menntamálastofnunnar heldur samdægurs til okkar, ekki eftir þrjá mánuði eða í lok skólaársins. Þá er þetta orðið eitthvað námsmatsgagn fyrir okkur kennara. Þarna tökum við það út að þetta sé á sama degi og sama tíma því augljóslega ræður menntamálastofnun ekki við það,“ segir Ingvi.
Segir það skekkju að bera saman mismunandi stóra árganga
Ingvi bendir einnig á það að samanburður skóla á niðurstöðum samræmdra prófa sé ekki sanngjarn.„Þau eru að bera saman skóla þar sem er 300 barna árgangur og svo sjö barna árgangur. Þetta er ekki að gagnast neinum eins og þetta er núna,“ segir Ingvi.