Önnur umferðin í Formúlu 1 fer fram í konungsveldinu Barein núna um helgina. Þetta verður í 14. skiptið sem að Formúlu 1 kappakstur verður haldinn á Barein-brautinni sem er 5,4 km að lengd, sem gerir hana að einni lengstu braut mótsins.
Sebastian Vettel á Ferrari stóð uppi sem sigurvegari í fyrstu umferðinni í Ástralíu fyrir tveimur vikum og annar varð helsti keppinautur hans Lewis Hamilton á Mercedes. Báðir þessir ökumenn eru að berjast um sinn fimmta titil í íþróttinni og er því alveg ljóst að slagurinn verður harður milli þeirra um helgina.
Þó að það hafi verið Ferrari sem náði sigri í Ástralíu er greinilegt að ítalski bílaframleiðandinn er aðeins á eftir Mercedes í ár hvað hraða varðar. Það voru einföld reiknimistök sem urðu þýska liðinu að falli fyrir tveimur vikum en Lewis Hamilton var fljótari en Vettel í Melbourne.
Ferrari mun þó koma bjartsýnt til leiks um helgina þar sem ekkert lið hefur unnið oftar í Barein heldur en ítalska liðið og Vettel hefur þar af auki náð þremur sigrum í eyðimörkinni.
Nokkrar smávægilegar breytingar hafa verið gerðar á brautinni fyrir kappaksturinn um helgina. Þar má helst nefna að DRS svæðið á ráskaflanum hefur verið lengt um 100 metra frá því í fyrra til þess að auka líkurnar á framúrakstri. Á DRS svæðum geta ökumenn opnað afturvæng bílsins sem minnkar loftmótstöðu sem gerir þeim auðvaldara fyrir að taka framúr.
Brautin í Barein er mjög krefjandi bæði fyrir ökumenn og bíla. Margar tæknilegar beygjur og hröðunarsvæði reyna gríðarlega á afturdekk bílana og hitinn í eyðimörkinni kann að verða bæði ökumönnum og vélbúnaði erfiður.
Æfingar, tímatökur og að sjálfsögðu kappaksturinn sjálfur verða í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport um helgina.
Upphitun fyrir Barein: Slagurinn í eyðimörkinni
