Skoðun

Rætin ummæli

Árni Þormóðsson skrifar
Mjög ósönn og rætin ummæli um SÁÁ eru höfð eftir Kristínu Pálsdóttur, talskonu Rótarinnar, félags kvenna með áfengis- og fíknivanda, í Fréttablaðinu 11. apríl sl. M.a. er haft er eftir talskonunni að SÁÁ „standi þróun og breytingum í meðferðarstarfi fyrir þrifum“, og hafi „staðið í vegi fyrir þróun í meðferðarstarfi hérlendis, meðal annars vegna ríkra rekstrarhagsmuna samtakanna.“

Þarna fer talskonan með sérstaklega ósvífnar ósannar ásakanir á hendur samtökunum. Með ósannindum sínum snýr talskonan staðreyndum á haus. SÁÁ hefur frá upphafi samtakanna, fyrir rúmum 40 árum, þróað og bætt meðferðarstarfið sem var nánast ekkert í landinu fyrir stofnun samtakanna. Á ráðstefnu sem haldin var í tilefni af 40 ára afmæli samtakanna sl. haust komu margir af fremstu fíknarlæknum heims sem báru lof á meðferðarstarf og árangur SÁÁ. Þetta vita allir sem vilja vita og bera ekki annarlegar hvatir í brjósti til samtakanna, eins og augljóslega birtast í ummælum talskonunnar í viðtalinu.

Meðferðarstarf SÁÁ var lengst af leitt af Þórarni Tyrfingssyni lækni og menntuðum áfengis- og vímuefnaráðgjöfum og nú af Valgerði Rúnarsdóttur, sérfræðingi í fíknarlækningum. Um 25.000 manns hafa þegið meðferð á Vogi og öðrum meðferðarstofnunum samtakanna og flestir hafa fengið góðan bata. Árangurinn hefur vakið athygli í öðrum löndum.

Talskonan gagnrýnir menntun áfengis- og vímuefnaráðgjafa SÁÁ og líkir henni saman við eina önn í framhaldsskóla. Þessi samanburður er algjörlega út í hött og sýnir einungis hvað talskonan veit lítið um það sem hún er að tala um. Líklegra er þó að hún viti betur en kjósi að halda hinu ranga fram í viðleitni sinni til að skaða samtökin. Talskonur Rótarinnar hafa frá upphafi þeirra félags haldið uppi ósönnum og rakalausum óhróðri gegn SÁÁ í stað þess að beita sér fyrir því að ríkið geri skyldu sína í því að fjármagna þennan þátt heilbrigðisþjónustunnar sem áfengis- og vímuefnameðferð er. Það væri auðvitað hægt að gera mun betur í meðferðar­starfi SÁÁ fengjust nægir peningar til starfsins. Fjárskortur hefur alltaf takmarkað starfsgetu SÁÁ sem þó hefur unnið þrekvirki með gríðarlega góðum stuðningi almennings í landinu.

Höfundur er félagi í SÁÁ


Tengdar fréttir




Skoðun

Sjá meira


×