Skoðun

Horfumst í augu við vandann

Egill Þór Jónsson skrifar
Á uppvaxtarárum mínum lærði ég fljótt að fyrsta skrefið við lausn vandamála felst í viðurkenningu á vandanum. Staðreyndin er hins vegar sú að það er ekki alltaf einfalt að standa andspænis sannleikanum og horfast í augu við vandann. Við þekkjum það flest.

Einn stærsti vandi sem borgaryfirvöldum hefur láðst að horfast í augu við – og standa því frammi fyrir nú – er hinn margumtalaði húsnæðisvandi. Hann byggist fyrst og fremst á því hversu hægt gengur hjá meirihlutanum að byggja enda stefna hans ýtt undir lítið framboð af lóðum. Sannleikurinn er sá að þrátt fyrir fögur fyrirheit fjölgaði íbúðum í fyrra um einungis 322 í allri höfuðborginni, stærsta sveitarfélagi landsins. Á meðan íbúðum í einu af minni sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins, Mosfellsbæ, fjölgaði umtalsvert meira, eða um 401. Ísköld staðreynd, blákaldur sannleikur.

Sjálfur er ég 27 ára og bý enn hjá móður minni í Breiðholtinu. Undanfarin tvö ár hef ég starfað sem teymisstjóri á sambýli fyrir geðfatlaða, í starfi sem ég hef unun af og krefst háskólamenntunar. Hver einustu mánaðamót hef ég lagt samviskusamlega fyrir og hjálpað til við rekstur heimilisins. Þrátt fyrir þetta er ég enn í þeirri stöðu að geta ekki fjárfest í húsnæði.

Mér finnst stundum erfitt til þess að hugsa að ekki eru allir jafn heppnir og ég. Þannig er, að það lifa ekki allir við þann lúxus að geta búið í foreldrahúsum. Sjálfur þekki ég dæmi þess að fólk á aldri við mig hefur með engu móti tök á að búa heima, er kannski að ala upp börn á leikskólaaldri, fast á leigumarkaði og í láglaunastörfum jafnvel.

Veruleikinn er sá að þessi þróun hefur orðið til þess að fólk gefst upp og flyst í önnur nærliggjandi sveitarfélög. Hin mikla uppbygging í Mosfellsbæ er gott dæmi um þessa þróun. Við þetta getum við ekki unað. Það er kominn tími til breytinga. Ef Reykjavík á að vera fyrir alla, unga sem aldna, er nauðsynlegt að bregðast hratt við en það verður ekki gert án þess að borgarstjórn sýni kjark og horfist í augu við vandann. Ég sem frambjóðandi í 4. sæti lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík er tilbúinn til þess.

Höfundur er félagsfræðingur og í 4. sæti lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík




Skoðun

Sjá meira


×