Innlent

Sýna ljósmæðrum stuðning með bumbunum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hópur fólks hefur ritað hvatninguna á vömbina á sér.
Hópur fólks hefur ritað hvatninguna á vömbina á sér. Aðsend
Hópur nýbakaðra og verðandi foreldra segist óttasleginn vegna þeirrar stöðu sem komin er upp í kjarabaráttu ljósmæðra. Hópurinn skorar á stjórnvöld að ganga strax til samninga og lýsir um leið fullum stuðningi við ljósmæður - meðal annars með hvatningarskilaboðum á fjölbreyttum bumbum.

„Aðgerðaleysi stjórnvalda í lengri tíma er með öllu óásættanlegt og verður ekki skilið öðruvísi en sem vanvirðing fyrir starfi ljósmæðra og börnunum okkar. Flótti úr stéttinni, skortur á heimaþjónustu fyrir hvítvoðunga og sængurkonur, ótti og kvíði verðandi foreldra er nú á ábyrgð stjórnvalda,“ segir í yfirlýsingu sem hópurinn sendi á fjölmiðla í morgun.

Hann skorar á stjórnvöld að leggja fram „ásættanlegt samningstilboð“ strax. „Katrín Jakobsdóttir, Bjarni Benediktsson og Svandís Svavarsdóttir, sýnið ljósmæðrum virðingu í verki og semjið við þær, það er svo mikið í húfi!“

Sjá einnig: Kjarasamningur við ljósmæður ekki í sjónmáli

Hópurinn hvetur jafnframt aðra verðandi, sem og nýbakaða foreldra, til að sýna baráttunni lið með því að deila myndum af sér með myllumerkinu #égstyðljósmæður skrifað á magann - eins og sjá má á myndinni hér að ofan.

Landspítalinn virkjaði í morgun sérstaka viðbragðs­áætlun vegna ljósmæðra sem nú sinna ekki heimaþjónustu við konur og nýbura vegna kjaradeilunnar. 

Meðal annars verður konum á deildum Landspítalans forgangsraðað eftir bráðleika. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×