Erlent

Ætlar að veiða ETA-liða eftir upplausn

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar.
Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar. Vísir/EPA
Euskadi Ta Askatasuna (ETA), aðskilnaðarsamtök Baska, lýstu því í gær yfir að samtökin hefðu verið leyst upp að fullu og að allri starfsemi hefði verið hætt. Er þar með fimmtíu ára ofbeldisfullri sögu ETA lokið en ódæðisverk ETA kostuðu um 850 lífið.

Í yfirlýsingu sem ETA sendi meðal annars á BBC sagði að ETA myndi ekki lengur tjá pólitískar skoðanir sínar né berjast fyrir sjálfstæði Baska. Fyrrverandi meðlimir ETA myndu þó halda áfram baráttunni á eigin vegum fyrir „sameinuðu, sjálfstæðu, sósíalísku, baskneskumælandi, feðraveldislausu Baskaríki“.

Þótt samtökin hafi nú lagt niður vopn sín, leyst upp og beðist afsökunar að hluta ætlar Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, ekki að sýna neina miskunn. Sagði hann í gær að ETA-liðar fengju engan frið, ríkisstjórnin myndi finna alla þá sem hefðu staðið að hryðjuverkum.

„Það skiptir engu máli hvað ETA-liðar kjósa að gera á næstu dögum. Það verður ekkert refsileysi. Ekkert mun breyta því að verkefni þeirra hefur að öllu leyti mistekist,“ sagði Rajoy. Bætti hann því við að þótt ETA tilkynni um hvarf sitt hverfi fyrri glæpir samtakanna ekki. Stjórnvöld muni halda áfram að eltast við ETA-liða.




Tengdar fréttir

Afsökunarbeiðni skref í átt að upplausn ETA

Aðskilnaðarsamtök Baska biðjast afsökunar. Höfðu áður lagt niður vopn. Gerðu fjölda árása og myrtu meðal annars forsætisráðherra á sínum tíma. Afsökunarbeiðninni hafnað. Spænska ríkið fer fram á skilyrðislausa upplausn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×