Innlent

Skúrir og slydda, snjókoma og él

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það er vor en veðrið í kortunum minnir kannski meira á haust.
Það er vor en veðrið í kortunum minnir kannski meira á haust. vísir/sigtryggur ari
Það er úrkomubakki yfir austanverðu landinu og mun rigna úr honum á láglendi en búast við slyddu og snjókomu til fjalla að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Um vestanvert landið er síðan spáð skúrum eða slydduéljum en éljum þegar ofar dregur.

Í nótt gránaði víða um land en með hækkandi sól með morgninum mun sá litli snjór sem festi bráðna. Það mun svo stytta upp á austanverðu landinu í kvöld.

Veðurhorfur á landinu í dag og næstu daga:

Vestan 8-13 og stöku skúrir eða slydduél. Norðlægari austanlands og rigning á láglendi, en slydda eða snjókoma til fjalla, styttir upp þar seint í kvöld.

Suðvestan 8-13 m/s og rigning með köflum á morgun, en hægari og léttskýjað um landið norðaustanvert.

Hiti víða 2 til 7 stig, en hlýnar heldur á morgun.

Á miðvikudag:

Suðvestan 8-13 m/s og rigning með köflum, en hægari og léttskýjað um landið norðaustanvert. Hiti 5 til 10 stig.

Á fimmtudag:

Gengur í suðaustan 10-15 m/s og fer að rigna með deginum, fyrst vestantil. Hægari vindur og bjartviðri á Norður- og Austurlandi. Hiti 7 til 15 stig, hlýjast um landið norðaustanvert.

Á föstudag:

Suðvestan og vestanátt, 5-13 m/s og dálítil væta í flestum landshlutum. Hiti 4 til 9 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×