Skoðun

Engir betri Píratar en Píratar

Dóra Björt Guðjónsdóttir skrifar
Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, hefur að eigin sögn hug á að endurræsa Reykjavík og er tíðrætt um að stytta boðleiðir og einfalda ferlana í borginni. Viðreisn talar um einfaldara líf og virðist vitna í sömu hugmynd. Sósíalistaflokkurinn notar slagorðið „valdið til fólksins“. Það er okkur Pírötum alltaf fagnaðarefni þegar við sjáum að við erum öðrum innblástur, en það er enginn flokkur betri í að vera Píratar en einmitt Píratar. Markmiðin hafa þessir flokkar á hreinu og þeim deilum við með þeim. En hvernig ætla þeir að fara að þessu? Ég hef nefnilega ekki séð neinar raunhæfar lausnir.

Á núverandi kjörtímabili hafa Píratar átt einn mann í núverandi meirihluta. Miðað við það höfum við náð mögnuðum hlutum í gegn. Við höfum hafist handa við að vald­efla borgarbúa með því að festa umboðsmann borgarbúa í sessi, styrkja lýðræðistól eins og Betri Reykjavík og Hverfið mitt, opna bókhald borgarinnar og stofna rafræna þjónustumiðstöð. Þar að auki höfum við tekið frumkvæði að nýjum stefnum borgarinnar og með nýrri upplýsingastefnu, þjónustustefnu og lýðræðisstefnu höfum við lagt grunn að stórum og mikilvægum breytingum, jafnvel umbyltingu, í þjónustu borgarinnar. Þessar stefnur ásamt endurgerð þjónustuferla og rafvæðingu stjórnsýslunnar sem við höfum lagt grunn að, munu stytta boðleiðir, einfalda kerfin og bæta þjónustu við borgarbúa svo um munar.

Við Píratar viljum raunverulegar lausnir til lengri tíma, ekki plástrapólitík til fjögurra ára. Við gætum almannahags og það er gríðarlega frelsandi í pólitík. Við viljum samfélag sem er gott að búa í og þar sem allir fá að njóta sín. Við viljum langtímahugsun og fagleg og traust vinnubrögð og gera hlutina vel frá byrjun frekar en að hlaupa af stað og framkvæma strax til að skrapa saman einhver atkvæði.

Við stöndum fyrir nýrri sýn á pólitík. Þar sem stjórnmálin þjóna fólkinu. Þetta er róttækt á Íslandi, á litlu landi þar sem stjórnmálin hafa verið mikið til notuð til þess að færa vald frá almenningi til lítillar elítu sem svo handlangar góss og völd til vina og vandamanna.

Við Píratar sækjumst eftir valdi til þess að dreifa því. Við viljum gagnsæi svo þú getir sjálf athugað í hvað peningarnir fara og hvernig ákvarðanir eru teknar. Við viljum traust og fagleg kerfi sem koma í veg fyrir spillingu. Þangað bíður okkar löng leið. En við höldum ótrauð áfram og gefumst aldrei upp.

Ekkert rugl á okkar vakt. Setjum X við P.

Höfundur er oddviti Pírata í Reykjavík




Skoðun

Sjá meira


×