Skoðun

Uppbygging miðbæjar í Garðabæ; blómlegur miðbær – sterkt mannlíf

Sigríður Hulda Jónsdóttir skrifar

Aðlaðandi miðbær með þjónustu og verslun er mikilvægur hluti af bæjarbrag. Garðabær er þétt fjölskyldusamfélag þar sem bæjarbúar heilsast, spyrja frétta og láta sér annt hver um annan. Þetta er bæjarmenning sem við viljum standa vörð um og verður sífellt dýrmætari í hraða samfélagsins. Öflugur miðbær styður við sterkt mannlíf.



Áfram uppbygging á Garðatorgi

Mikil uppbygging hefur verið á Garðatorgi sem er sífellt að verða öflugra með bílakjallara, glæsilegum verslunum, margs konar þjónustu og fyrsta flokks veitingastöðum. Sterkur miðbær eykur möguleikana fyrir íbúa, það er stutt að skreppa eftir gjafavöru, hitta vini í hádeginu eða koma á fund yfir góðum kaffibolla. Frágangi við byggingaframkvæmdir Garðatorgs 6 er að ljúka þar sem nú eru komnar verslanir og nýr veitingastaður. Frekari uppbygging og fegrun á torginu er brýnt verkefni sem er fyrirhugað á þessu ári og þeim næstu. Ákveðið hefur verið að setja fjármunir í að bæta aðstöðuna á torginu svo sem göngugötuna, innitorg og merkingar.



Landsleikur sýndur á torginu

Fyrirhugað er að sýna fyrsta leik Íslands á heimsmeistaramóti karla í fótbolta á breiðtjaldi á Garðatorgi þann 16. júní þegar Ísland mætir Argentínu. Þannig er torgið vettvangur fyrir ýmsa atburði og bæjarhátíðir þar sem bæjarbúar hittast og eiga góðar stundir saman.



Miðbær til framtíðar

Mikilvægt er að horfa til framtíðar við mótun miðbæjar og ljóst er að ákveðnar breytingar eru fram undan um leið og öðrum framkvæmdum lýkur. Þar má nefna að Arion banki er á förum af torginu og æskilegt er að í það húsnæði komi líflegur rekstur sem dregur að sér mannlíf. Tiltekt og þrif hafa staðið yfir á vordögum í bílakjallara. Snyrting og málningarvinna á bílaplani og torgi er hluti af vorverkunum auk þess sem bekkjum verður fjölgað og gróður settur á torgið. Höldum áfram að byggja upp öflugan miðbæ í samvinnu við rekstraraðila á torginu, miðbæ sem eykur lífsgæði og samheldni íbúa og er bænum til sóma.



Sigríður Hulda Jónsdóttir, bæjarfulltrúi og skipar 2. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ.




Skoðun

Sjá meira


×