Katrín Tanja Davíðsdóttir tryggði sér einnig sæti á leikana en hún keppti á East Regionals um helgina í Bandaríkjunum.. Hún er búin að standa sig frábærlega og því er sæti hennar á leikunum ekki í mikilli hættu. Hún tók fyrsta sætið í öllum viðburðum helgarinnar nema einum.
Í fyrri viðburði dagsins þurftu keppendur að gera 50 handstöðuarmbeygjur, 50 fótauppréttingar (e. Toes to bar) og hjóla á sérstöku hjóli (e. Assault bike). Þegar þessu öllu var svo lokið áttu keppendur að halda á þungum lóðum og fara yfir kassa og svo í lokin að halda á lóðunum og gera framstig fram og til baka yfir keppnisvöllinn. Karlarnir höfðu aðeins 17 mínútur til þess að klára þetta en konurnar 22 mínútur.

Björgvin vinnur á
Ljóst var fyrir daginn í dag að Björgvin Karl þyrfti að ná góðum árangri í báðum viðburðum dagsins. Hann byrjaði mjög vel en fór að hægja verulega á sér undir lokin og náði ekki að klára innan tímarammans. Við þetta hoppaði Björgvin upp í fimmta sæti en Fredrik, kærasti Anniear, datt niður í það sjötta. Fredrik er alls ekki óvanur því að vera í þessari stöðu en fyrir ári síðan var hann í nákvæmlega sömu sporum og það réðst á síðustu metrunum hvort að hann myndi fara með Annie til Bandaríkjanna að keppa.
Annie og Ragnheiður Sara öflugar
Næst var komið að stelpunum okkar. Annie og Sara voru mjög öflugar og tóku fyrsta og annað sætið í þessum viðburði. Þuriður Erla náði sjöunda sætinu og Björk Óðinsdóttir náði níunda sætinu. Sólveig Sigurðardóttir náði ekki að klára áður en tíminn leið út.Í síðasta viðburði dagsins og helgarinnar áttu keppendur að klifra upp kaðal og gera hnébeygju með axlapressu (e.Thrusters) þess á milli. Endurtekningarnar af kaðlaklifrinu voru 4-3-2 og endurtekningarnar af hnébeygjunum með axlapressunni voru 16-12-8.
Árni Björn Kristjánsson gerði frábæra hluti í þessum seinni viðburði dagsins og varð í öðru sæti í sínum riðli. Sigurður Þrastarson var svo í næsta riðli en hann náði áttunda sætinu í honum. Mótshaldarar ákváðu að geyma seinasta riðilinn hjá körlunum þangað til að konurnar væru búnar því ljóst var að úrslitin myndu ekki ráðast nemá á síðustu metrunum hjá þeim. Fín leið til þess að byggja upp spennu.
Taugatrekkjandi mínútur
Næst var komið að stelpunum í síðasta viðburði dagsins. Annie og Ragnheiður Sara tóku fljótlega forystuna í sínum riðli. Það var ljóst að Björk Óðinsdóttir þyrfti að ná mjög góðum árangri ef að hún ætlaði að ná á leikana. Þuríður Erla var það langt frá efstu fimm sætunum að hún hefði þurft að vinna riðilinn með yfirburðum til þess að komast á leikana.Síðasti riðilinn hjá körlunum var æsispennandi. Það var ljóst að Björgvin þyrfti að standa sig vel til þess að ná á leikana og Fredrik var ekki í ákjósanlegri stöðu. Björgvin tók þriðja sætið í þessum viðburði en Fredrik náði ellefta sætinu.