Innheimt veiðigjald ársins 2017 var 8,4 milljarðar króna. Yrði veiðigjald almanaksársins 2018 endurreiknað á grundvelli niðurstaðna spálíkans veiðigjaldsnefndar myndi gjaldið nema um 7,2 milljörðum króna að teknu tilliti til áhrifa svonefnds persónuafsláttar.
„Þetta er stórpólitískt mál sem verið er að leggja fram alveg í blálok þingsins. Hér er verið að leggja til krónulækkun á öllum tegundum og verið að lækka veiðigjöldin úr 11 milljörðum króna í 8,3 milljarða króna. Þessa stóru ákvörðun á svo að keyra í gegnum þingið á mettíma,“ segir Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, fulltrúi Samfylkingar í atvinnuveganefnd.
„Við erum að endurútreikna veiðigjöld miðað við afkomu greinarinnar í ár en ekki ársins 2015,“ segir Lilja Rafney. „Miðað við afkomu greinarinnar í ár er augljóst að hún hefur versnað frá því sem var áður. EBITDA-hagnaður útgerðanna er kominn niður í um 16 prósent sem er ákveðin þolmörk,“ bætir hún við.
Sjá einnig: Veiðigjald á kolmunna verður 83 prósent lægra en í Færeyjum

„Það hefur alltaf verið talið að veiðigjöld ættu að vera afkomutengd og reynt hefur verið að setja kerfið upp á þann veg. Nýtt frumvarp, sem við ætlum að leggja fram í haust, mun taka á þessum málum þar sem við reiknum veiðigjöld út frá afkomu í rauntíma en ekki afkomu fyrirtækja fyrir tveimur árum,“ segir Lilja.
Albertína segir hagsmunaaðila fá afar stuttan frest til að skila inn umsögn um málið. Það sé skýrt dæmi um óvandaða stjórnsýslu.
„Það er í raun óboðleg stjórnsýsla að meirihlutinn ætli aðeins að gefa rúman sólarhring í umsagnarferlið. Það er ekki í takt við það sem var lofað í upphafi stjórnarsamstarfs þessara flokka. Í öllu falli mótmælum við harðlega þessum vinnubrögðum stjórnarmeirihlutans.“