Handbolti

Ester: Svekkjandi að klára þetta ekki

Benedikt Grétarsson skrifar
Eyjakonan Ester Óskarsdóttir er í lykilhlutverki í varnarleik íslenska liðsins.
Eyjakonan Ester Óskarsdóttir er í lykilhlutverki í varnarleik íslenska liðsins. Fréttablaðið/Anton brink
Ester Óskarsdóttir lék mjög vel í vörn Íslands í tapinu gegn Tékkum í Laugardalshöll í kvöld en var þrátt fyrir allt brosmild en þreytt í leikslok. Tapið þýðir að Ísland á ekki möguleika á því að komast í lokakeppni EM 2018

„Við hefðum viljað fá nokkrar mínútur í viðbót og það munaði ekki miklu að við næðum að snúa þessu við. Byrjunin var bara ekki nógu góð og gerði okkur þetta enn erfiðara um vik.“

Fyrstu 20 mínútur leiksins voru einfaldlega slakar en allt annað var að sjá til íslenska liðsins í seinni hálfleiks.

„Það skein í gegn karakterinn og við þjöppuðum okkur saman. Það vantaði bara herslumuninn og við náðum stundum ekki alveg að vinna boltann 100%, þegar varnarleikurinn virkaði. Það datt svolítið mikið með þeim á löngum köflum,“ sagði Ester.

Dómgæslan var á köflum ansi skrýtin og Ester tekur undir það.

„Já mér fannst margir dómar svolítið vafasamir. Það var einhverra hluta vegna allt að detta þeim megin í dómgæslunni á lykilstundum en svona er þetta bara stundum.“

Erfiður leikur bíður íslenska liðsins á laugardag þegar gríðarsterkt lið Dana verður heimsótt. Það er þó engan billbug á Esteri að finna.

„Nú er það bara endurheimt á morgun, flug á föstudaginn og svo bara hörkuleikur gegn Dönum ytra. Við verðum klárar í þann leik,“ sagði Ester að lokum


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×