Elín M. Stefánsdóttir bóndi í Fellshlíð hefur tekið við stjórnarformennsku hjá Mjólkursamsölunni og verður jafnframt fyrsta konan til þess að gegna hlutverki stjórnarformanns hjá fyrirtækinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Mjólkursamsölunni.
Elín hefur setið í stjórn Auðhumlu og Mjólkursamsölunnar slíðastliðin 6 ár. Hún og eiginmaður hennar Ævar Hreinsson búa að Fellshlíð í Eyjafjarðarsveit og hafa verið bændur þar síðan 2002. Þau eiga 4 börn.
Elín segir að hún hafi mikla ástríðu fyrir því að landbúnaður á Íslandi dafni sem best, að því er fram kemur í tilkynningu.
„Ég vil sjá Mjólkursamsöluna dafna sem best í framtíðinni. Fram undan eru margar áskoranir fyrir mjólkuriðnaðinn í kringum endurskoðun á búvörusamningum, tollasamninginn við ESB, aukinn innflutning og fleiri þætti, sem geta haft veruleg áhrif á fyrirtækið sem er í eigu okkar kúabænda."
Mjólkursamsalan er í eigu Auðhumlu, samvinnufélags kúabænda (90,1%) og KS (9,9%). Mjólkursamsalan varð til við hagræðingu í mjólkuriðnaðinum og hefur starfað í núverandi mynd frá árinu 2007.
