Erlent

Pútín segist ekki vilja sundra ESB

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vladímír Pútín segist vilja sameinað og sterkt Evrópusamband.
Vladímír Pútín segist vilja sameinað og sterkt Evrópusamband. Vísir/EPA
Rússlandsforsetinn Vladímír Pútín segir það ekki markmið sitt að kljúfa Evrópusambandið í herðar niður. Þvert á móti sé sambandið einn mikilvægasti bandamaður Rússlands á alþjóðvettvangi, ekki síst þegar kemur að viðskiptum.

Pútín undirbýr sig nú fyrir ferð sína til Austurríkis. Þetta er fyrsta ferð forsetans til ríkis í Vestur-Evrópu í um heilt ár. Í samtali við austurríska sjónvarpsstöð segir forsteinn að hann vilji „sameinað og dafnandi“ Evrópusamband.

Vandamál ESB séu í raun vandamál Rússa, utanríkisverslun ríkisins hvíli nær algjörlega á viðskiptum við aðildarríki sambandsins. „Við þurfum að styrkja samvinnunna við ESB. Það er ekki markmið okkar að sundra nokkru innan sambandsins,“ sagði Pútín ennfremur.

Rússar hafa verið gagnrýndir fyrir að reyna að hafa áhrif á kosningar í Evrópu. Hafa þeir verið sakaðir um að menga kosningaumræður ríkjanna með margvíslegum áróðri, sem oftar en ekki elur á andúð á ESB og fjölmenningu.

Pútín mun funda með forseta Austurríkis, Alexander Van der Bellen, og kanslaranum Sebastian Kurz. Aðspurður um tengsl flokks síns við austurríska Frelsisflokkinn, stjórnarflokkinn sem hefur efasemdir um aðild að Evrópusambandinu, segir Pútín þau vera engin.

Þó má ætla að viðskiptaþvinganir ESB gegn Rússum, sem komið var á laggirnar eftir innlimun Krímskagans árið 2014, verði fyrirferðamiklar í viðræðum Pútíns og ESB-efasemdarmannanna í Austurríki.

Greinandi breska ríkisútvarpsins telur að Pútín muni nýta fundinn til að draga úr einangrun Rússa á alþjóðavettvangi. Forsetinn viti að ESB stendur nú í stappi við Bandaríkjastjórn, sem hefur hækkað tolla á innfluttar evrópskar vörur, og því sé þetta rétti tíminn til að rétta fram rússneska hjálparhönd.


Tengdar fréttir

Pútín vill lækka spennustigið

Eftir að Bandaríkin og Rússland komust nálægt beinum átökum í Sýrlandi og í ljósi mikilla áhrifa viðskiptaþvingana á rússneska hagkerfið vill Vladímír Pútín, forseti Rússlands, reyna að minnka togstreitu milli Rússa og Vesturlanda.

„Pútín hugsar eins og njósnaforingi"

Nikolaj Petrov, stjórnmálafræðingur frá Moskvu, var gestur Heimis Más Péturssonar í Víglínunni í dag. Þeir ræddu stjórnmálalandslagið í Rússlandi og Vladimir Pútín, en Pútín sór embættiseið í fjórða sinn sem forseti Rússlands síðastliðinn mánudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×