Skoðun

Nokkrar staðreyndir

Sirrý Hallgrímsdóttir skrifar
Fréttir um útskrift Versló, MS og Kvennó eru athyglisverðar. Í fyrsta sinn birtast tölur og rannsóknir um hvernig hefur gengið að innleiða þriggja ára kerfið í framhaldsskólann, bæði hvað náms­árangur varðar og líðan nemenda í hinu nýja kerfi.

Nokkur atriði eru sérstaklega eftirtektarverð. Þvert á hrakspár hefur brottfall ekki aukist við þessa breytingu og frekar hitt að það hafi dregið úr því. Rektor MS segir t.d. að brottfall hafi verið nokkuð í fjögra ára kerfinu en með nýju þriggja ára kerfi og breytingum á námskrá hafi brottfallið nánast horfið.

Versló notaði tækifærið og lét nemendur úr þriggja ára og fjögra ára kerfunum þreyta sama próf í íslensku og stærðfræði. Niðurstöður íslenskuprófanna voru þær að nemendur sem voru í þriggja ára kerfinu fengu sömu niðurstöður og nemendur úr fjögra ára kerfinu. En í stærðfræðiprófinu fengu nemendur úr þriggja ára kerfinu mun hærri einkunn en nemendur úr fjögra ára kerfinu!

Versló framkvæmdi einnig rannsókn á álagi á útskriftarnemendurna. Niðurstaða þeirrar rannsóknar leiddi í ljós að nemendum við skólann fannst álagið ekki of mikið. Í Kvennó var líka gerð könnun á vinnuálaginu á meðal nemenda. Niðurstaðan var sú að 85 prósent nemendanna við þann skóla töldu að álagið væri hæfilegt.

Áhugavert er að bera þessar niðurstöður prófa og rannsókna saman við allar hrakspárnar og fullyrðingarnar sem hafa birst um þetta mál undanfarin misseri. Í því sambandi og að gefnu tilefni hlakka ég til að sjá hvort fréttastofa RÚV muni frétta af þessum niðurstöðum. Þar á bæ hafa nefnilega birst margar „fréttir“ um skoðanir og andstöðu við hið nýja fyrirkomulag.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×