Vefurinn Defence-Blog.com, sem fjallar um hernaðarmál, birtir myndband af slysinu úr eftirlitsmyndavél á flugvellinum í Pohang í Suður-Kóreu. Kemur fram að herþyrla hafi verið að leggja upp í reynsluflug síðdegis 17. júlí. Þyrlan er af gerðinni MUH-1 Surion. Sú tegund er framleidd í samstarfi við Airbus sem leggur meðal annars til gírkassa í vélarnar.
„Þyrlan hrapaði í reynsluflugi. Herinn mun setja saman rannsóknarteymi til að finna nákvæmlega ástæðuna fyrir slysinu,“ er haft eftir embættismanni í Suður-Kóreu. Litlar opinberar fréttir eru af málinu þar sem ekki var um borgaralegt flug að ræða en myndbandið er á frettabladid.is.
Flughæð þyrlunnar var aðeins um tíu metrar þegar aðalspaði hennar losnaði af og vélin steyptist til jarðar. Eldur kom upp í flakinu og aðeins einn af sex um borð lifði af. Er um að ræða sams konar slys og í Noregi 2016 þar sem þrettán fórust og í Skotlandi 2009 þar sem sextán manns létu lífið. Voru þær þyrlur af Super Puma gerð – sams konar vélar og Landhelgisgæsla Íslands hefur samið um leigu á með því að taka því sem lýst var sem „tilboð aldarinnar“ í innanhússpósti hjá stofnuninni.
Eins og komið hefur fram í Fréttablaðinu kynnti rannsóknarnefnd flugslysa í Noregi 5. júlí síðastliðinn lokaniðurstöður sínar varðandi þyrluslysið 2016. Þá voru aðeins fáeinar vikur frá því að Landhelgisgæslan gekk að skynditilboði um að taka áðurnefndar þyrlur á leigu. Rannsóknarnefndin sagði meðal annars ósannað að ekki gætu enn þróast leyndar málmþreytusprungur í gírkössunum. Airbus verði að endurhanna gírkassann með tilliti til styrkleika, áreiðanleika og öryggis. Það væri hins vegar á ábyrgð annarra en nefndarinnar að skera úr um lofthæfi vélanna.
Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, sagði eftir útkomu norsku skýrslunnar að sérfræðingar stofnunarinnar myndu á vikunum á eftir kynna sér efni hennar. Ekki fengust upplýsingar um stöðu þess máls hjá Landhelgisgæslunni í gær.