Sport

Anníe Mist þurfti aðstoð eftir erfiðasta daginn í sögu CrossFit

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anníe Mist Þórisdóttir og hinir keppendurnir á tólftu heimsleikunum í CrossFit eyða deginum í dag í endurheimt og þau þurfa líka á því að halda.

Erfiðasti dagurinn í sögu heimsleikanna í CrossFit er að baki en honum lauk með rúmlega þriggja tíma róðri í nótt.

Keppendurnir fá hvíldardag í dag og þeir þurftu líka á honum að halda eftir rosalega erfiðan dag í gær.

Það er eitt að klára einn maraþonróður en hvað þá að gera það eftir að hafa klárað þrjár aðrar greinar fyrr um daginn.

Afleiðingar þessa sáust á Anníe Mist Þórisdóttir eftir maraþonróðurinn í nótt en hún birti myndband af sér á Insta Story á Instagram þar sem sést þegar hún þarf hjálp við að fara upp stiga eftir keppnina.

Anníe Mist er þar á ferðinni ásamt Camille Leblanc-Bazinet. Anníe Mist varð í þriðja sæti í maraþonróðrinum og er í 3. sætinu samanlagt eftir fjórar greinar sem er frábær árangur hjá henni.

Anníe Mist og félagar höfðu áður keppt í götuhjólreiðum, togað sig upp í hringjum og klárað þrískipta lyftingaæfingu.

Anníe Mist Þórisdóttir er á sínum níundu heimsleikum í CrossFit og ætti því að geta vottað það að miðvikudaginn 1. ágúst 2018 hafi verið lengsti og erfiðasti dagurinn í sögu heimsleikanna í CrossFit.

Hér fyrir neðan má sjá þegar Anníe Mist Þórisdóttir og Camille Leblanc-Bazinet fá hjálp til að fara upp stiga eftir erfiðasta daginn í sögu CrossFit. Þetta myndband segir meira en mörg orð.

Nú er bara að vona að allir keppendur nái að hvíla sig vel í dag og mæti síðan klárir í greinararnar þrjár sem fara fram á morgun.


Tengdar fréttir

Katrín Tanja þriðja í fyrstu grein

Katrín Tanja Davíðsdóttir byrjaði best af íslensku stelpunum á heimsleikunum í CrossFit en hún náði þriðja sætinu í fyrstu grein heimsleikanna sem hófust í dag í Madison í Wisconsin-fylki í Bandaríkjunum.

Sara er hugrakkasti íþróttamaðurinn sem ég hef unnið með

Phil Mansfield, nýr þjálfari íslensku crossfitstjörnunnar Ragnheiðar Söru Sigmundsdóttur, talar ekki vel um þær kringumstæður sem Sara hafur verið í undanfarin ár og ekki fá gömlu þjálfararnir hennar heldur góða einkunn hjá honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×