Eitt af bresku götublöðunum birti mynd af Corbyn með blómsveig nærri gröf Salah Khalaf, næstráðanda Frelsishreyfingar Palestínumanna (PLO), í Túnis árið 2014 um helgina. Khalaf er sagður hafa verið heilinn á bak við Svarta september, hryðjuverkahópinn sem tók ellefu meðlimi ísraelska Ólympíuhópsins í gíslingu og myrti á leikunum í München fyrir 46 árum. Einn vesturþýskur lögreglumaður var einnig drepinn í umsátrinu.
Corbyn, sem hefur verið sakaður um að láta gyðingaandúð í Verkamannaflokkunum óáreitta, sagðist upphaflega hafa verið á staðnum en hann hafi ekki tekið þátt í að leggja blómsveig að leiði Khalaf. Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, sagði að fordæma bæri gjörðir Corbyn.
Segist hafa minnst fórnarlamba loftárásar Ísraelsmanna
Nú segir Verkamannaflokkurinn að fréttir af heimsókn Corbyn í Túnis hafi verið „falskar og misvísandi“. Corbyn hafi aðeins verið staddur í grafreitnum vegna árlegra minningarathafnar um fórnarlömb loftárásar Ísraelsmanna á höfuðstöðvar PLO í október árið 1985.„Enginn þeirra sem stóð að fjöldamorðinu í München eru grafnir í palestínska grafreitnum í Túnis og það var engin minningarathöfn fyrir þá,“ segir talsmaður flokksins.
Corbyn hafi verið staddur í Túnis vegna ráðstefnu um málefni Palestínu. Fulltrúi frá Íhaldsflokknum og Frjálslyndum demókrötum hafi einnig tekið þátt í henni ásamt öðrum evrópskum þingmönnum, að því er segir í frétt The Guardian.
Uppákoman nú hefur kynt aftur undir gagnrýni á Corbyn fyrir meinta linkind hans í garð gyðingahatara í flokknum. Þrjú stærstu dagblöð gyðinga á Bretlandi birtu leiðara í síðasta mánuði þar sem þau vöruðu við því að samfélagi þeirra stafaði hætta af því ef Corbyn yrði forsætisráðherra.
Verkamannaflokkurinn í Ísrael sleit tengsl við flokk Corbyn í apríl. Bar formaður hans því við að Corbyn hefði umborið gyðingaandúð á meðal flokksmanna sinna og hatast út í stefnu ísraelskra stjórnvalda.