„Auðvitað erum við með mjög ungt lið en við fengum liðsstyrk, hún Sólveig Lára frá ÍR, kom til okkar þar sem við fáum sterka skyttu inn sem okkur vantaði svolítið í fyrra,“ sagði Martha í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.
„Þetta verður erfitt og markmiðið verður kannski aðallega það að halda sér uppi, ef maður er raunsær.“
Martha er tannlæknir og þriggja barna móðir ásamt því að spila með úrvalsdeildarliði í handbolta.
„Mér finnst þetta ótrúlega gaman. Maður finnur það þegar maður er kominn með þrjú börn að það eru forréttindi að geta verið áfram í íþrótt sem maður elskar.“
„Auðvitað hjálpar það til að mér er búið að ganga vel og á meðan ég get eitthvað og hjálpa liðinu þá ætla ég að reyna að halda áfram.“
KA/Þór hefur leik í Olís deildinni 15. september. Nýliðarnir fá deildarmeistara síðasta tímabils, Val, í heimsókn í fyrsta leik.