Lakshmi er 48 ára gömul og segir í pistlinum að þáverandi kærasti hafi nauðgað henni fyrir rúmum þrjátíu árum síðan. Í kjölfarið hafi henni fundist sem nauðgunin væri henni að kenna og þá segist hún skilja hvers vegna konur segi ekki frá kynferðisofbeldi sem þær eru beittar.
„Þetta verður bara vont í smá stund“
Lakshmi var 16 ára og kærastinn 23 ára þegar þau byrjuðu að hittast. Hún segir að kvöldið sem hann nauðgaði sér hafi hún gist í íbúð hans, sofnað og hrokkið upp með hann ofan á sér.„Ég spurði: „Hvað ertu að gera?“ Hann sagði: „Þetta verður bara vont í smá stund.“ „Gerðu það, ekki gera þetta,“ öskraði ég. […] Eftir að hann hafði lokið sér af sagði hann: „Ég hélt það yrði ekki eins sárt ef þú værir sofandi“.“
Lakshmi sagði aldrei neinum frá atvikinu, hvorki fjölskyldu sinni né lögreglu, þar sem hún byrjaði fljótlega að finna fyrir þrúgandi skömm. Lakshmi setur tilfinningar sínar í samhengi við ásakanir Christine Blasey Ford og Deboruh Ramirez á hendur Brett Kavanaugh, og þá enn fremur viðbrögð Donalds Trumps Bandaríkjaforseta við ásökununum.
Lakshmi vísar sérstaklega í tíst Trumps sem birt var á föstudag. Þar fullyrti forsetinn að Ford hefði án efa tilkynnt árás Kavanaugh til lögreglu, hefði ofbeldið verið jafnslæmt og hún lýsir því. Þá krafði Trump hana um gögn málsins. Myllumerkinu #WhyIDidntReport eða „þess vegna lagði ég ekki fram kæru“ var hleypt af stokkunum í kjölfar ummæla forsetans, líkt og greint var frá á Vísi um helgina.
I have no doubt that, if the attack on Dr. Ford was as bad as she says, charges would have been immediately filed with local Law Enforcement Authorities by either her or her loving parents. I ask that she bring those filings forward so that we can learn date, time, and place!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) September 21, 2018
Bæði Ford og Ramirez saka Kavanaugh um að hafa brotið á sér á níunda áratug síðustu aldar. Ford og Kavanaugh munu bæði bera vitni á fundi dómsmálanefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings á morgun vegna málsins. Kavanaugh segir ásakanir beggja kvenna rógburð.