Skipstjórinn á Frosta ÞH er ekki bjartsýnn á að skipið komist til veiða í bráð eftir að eldur kom upp í vélarrúmi skipsins á þriðjudag. Skemmdir vegna brunans séu meiri en hann hafi búist við í fyrstu.
Varðskipið Týr kom með Frosta ÞH í togi til Hafnarfjarðar um klukkan átta í morgun. Menn frá tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu komu fljótlega um borð til að skoða vettvanginn í vélarúminu þar sem eldurinn kom upp.
Þorsteinn Harðarson skipstjóri og aðrir skipverjar hafa síðan gefið skýrslur í dag um hvað gerðist þegar eldurinn blossaði upp á halamiðum úti fyrir Vestfjörðum um klukkan þrjú á þriðjudag.
Hvað gerist þetta snöggt?
„Þetta gerist bara á nokkrum sekúndum eða mínútum held ég. Ég veit ekki nákvæmlega tímann.”
Vélstjórarnir eru ekkert lengi inni í vélarrúminu?
„Þegar aðvörunin kemur um að það sé reykur þá hlaupa þeir niður og sjá þetta. Þeir forðuðu sér þegar varð einhver eldsprenging. Lokuðu á eftir sér hurðinni og vaktklefanum inn í vélarrúmið. Komu svo hingað upp og það var lokað öllum lúgum sem eru loftlúgur hérna uppi og hleypt á slökkvibúnaðinum,” segir Þorsteinn.
Hann vill koma þakklæti til allra sem komu áhöfninni til aðstoðar en nærliggjandi skipi veittu fyrstu aðstoð áður en varðskipið Týr og tvær þyrlur Gæslunnar komu á vettvang um fimm leytið á þriðjudag.
Fyrri þyrlan flutti aðalvélstjórann til aðhlynningar í landi en hann hlaut annars stigs brunasár á höndum og hálsi. Þegar Týr kom með Frosta til hafnar í morgun höfðu aðgerðir því staðið í um 38 klukkustundir.
Tryggingafélagið leyfir ekki myndatökur í vélarrúminu sjálfu en sjá má sótskemmdir í gangi ofan við vélarrúmið. Þorsteinn segir skemmdirnar meiri en ætlað var í fyrstu og því fari skipið ekki til veiða í bráð. „Ég er ekki bjartsýnn.”
Þetta gæti verið mikið tjón?
„Já ég er smeykur um það. Ég var ekki svona svartsýnn fyrir stuttu síðan en svo heyrði ég í einum áðan og mér líst ekki eins vel á það,” segir Þorsteinn Harðarson.

