Innlent

Dæmdur fyrir að hóta lög­reglu­mönnum líf­láti

Atli Ísleifsson skrifar
Í dómnum segir að við ákvörðun refsingar nú hafi verið litið til greiðrar játningar mannsins fyrir dómi.
Í dómnum segir að við ákvörðun refsingar nú hafi verið litið til greiðrar játningar mannsins fyrir dómi. Vísir/Hanna andrésdóttir
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í fjögurra mánaða fangelsi fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa í þrígang hótað lögreglumönnum, og í einu tilviki fjölskyldum þeirra, líkamsmeiðingum og lífláti.

Maðurinn er sömuleiðis dæmdur fyrir að hafa ekið bíl undur áhrifum fíkniefna með þeim afleiðingum að hann hafnaði uppi á umferðareyju milli akreina og festist í snjó. Í dómi segir að fresta skuli fullnustu refsingarinnar og fellur hún niður að tveimur árum liðnum haldi maðurinn almennt skilorð.

Við ákvörðun refsingar var litið til greiðrar játningar mannsins fyrir dómi. „Ákærði var undir miklum áhrifum fíkniefna þegar hann framdi valdstjórnarbrotin. Var ástand hans slíkt að vista þurfti hann í fangageymslu þar til hann var viðræðuhæfur. Ástand hans leysir hann ekki undan sök þó ætla megi að ásetningur hans hafi verið þokukenndur. Til þyngingar horfir að um alvarlega háttsemi var að ræða en brot hans beindust gegn nokkrum lögreglumönnum sem voru við skyldustörf,“ segir ennfremur í dómnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×