Handbolti

Barcelona vann Evrópumeistarana öðru sinni og er komið í úrslit

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Pálmarsson skoraði tvö mörk í dag.
Aron Pálmarsson skoraði tvö mörk í dag. vísir/epa
Aron Pálmarsson og félagar hans í spænska stórliðinu Barcelona komust í dag í úrslitaleik Heimsmeistaramóts félagsliða í handbolta þegar að þeir lögðu Evrópumeistara Montpellier, 37-30, í undanúrslitum.

Þetta er annar sigur Börsunga á Evrópumeisturunum í október en þegar að liðin mættust í A-riðli Meistaradeildarinnar í byrjun október vann Barcelona einnig sannfærandi sigur, 35-27.

Mikil meistaraþynnka er í Montpellier-liðinu sem er án sigurs eftir fimm leiki í Meistaradeildinni en Barcelona er á fljúgandi siglingu þar með átta stig af tíu mögulegum og að spila frábæran sóknarleik undir stjórn Arons.

Aron byrjaði á bekknum í dag en kom inn á og skoraði tvö mörk í fimm skotum og gaf tvær stoðsendingar. Sigurinn var aldrei í hættu í seinni hálfleik og Börsungar því komnir í úrslitaleikinn sem fram fer á laugardaginn.

Barcelona mætir þar annað hvor Füchse Berlín eða Al Sadd frá Katar. Má fastlega búast við því að Bjarki Már Elísson og félagar hans í liði Berlínarrefanna vinni sigur og mæti Barcelona í úrslitum annað árið í röð.

Katalóníurisinn varð heimsmeistari félagsliða í fyrra eftir sigur á Füchse en Berlínarliðið vann mótið tvö ár í röð á undan því.

Hér má sjá það helsta úr leik Barcelona og Montpellier.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×