Erlent

Gerðu rassíu saman vegna Khashoggi

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Tyrkneskir lögreglumenn við ræðismannsskrifstofuna í gær.
Tyrkneskir lögreglumenn við ræðismannsskrifstofuna í gær. Getty/Yasin Aras
Hópur rannsakenda fór í gær inn í ræðismannsskrifstofu Sádi-Araba í tyrknesku borginni Istanbúl. Yfirvöld í Tyrklandi sögðu að um væri að ræða sameiginlega rannsókn vegna máls sádiarabíska blaðamannsins Jamal Khashoggi, sem hvarf eftir að hafa farið inn á skrifstofuna fyrir um hálfum mánuði. Ekki lá fyrir hver afraksturinn var þegar Fréttablaðið fór í prentun í gær.

Tyrkneskir embættismenn hafa áður sagst óttast að sveit leigumorðingja á vegum Sádi-Araba hafi komið til landsins, myrt og sundurlimað Khashoggi en blaðamaðurinn hafði gagnrýnt sádiarabíska krónprinsinn Mohammed bin Salman harðlega, meðal annars í skoðanagrein í The Washington Post. Þessum ásökunum hafa Sádi-Arabar ítrekað hafnað en ekki lagt fram nein sönnunargögn fyrir því að Khashoggi hafi yfirgefið ræðismannsskrifstofuna.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ræddi við Salman, konung Sádi-Arabíu, í gær. Eftir samræðurnar greindi Trump frá því að Salman segðist ekkert vita um afdrif Khashoggi. Bætti hann því þó við að ráðist yrði í refsiaðgerðir ef sannað verður að Sádi-Arabar beri ábyrgð á hvarfinu.

Sádi-Aröbum hefur áður verið hótað aðgerðum vegna málsins. Þeir sögðu á sunnudag að ef þeim yrði refsað myndi ríkið svara með enn meiri refsiaðgerðum, sádiarabíska hagkerfið væri mikilvægt í alþjóðlegu samhengi.




Tengdar fréttir

Stórfyrirtæki fjarlægja sig Sádum eftir hvarf blaðamannsins

Sum vestræn fyrirtækja hika við að láta bendla sig við Sáda eftir hvarf blaða- og andófsmanns. Bandaríkjastjórn hefur hins vegar verið meira tvístígandi í viðbrögðum sínum við ásökunum um að Sádar hafi myrt hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×