Skoðun

Síðbúin íhaldssemi

Sigríður Á. Andersen skrifar
Pawel Bartoszek, fyrrverandi þingmaður Viðreisnar en núverandi borgarfulltrúi sama flokks, hefur gefið mér tilefni til þess rifja upp aðdragandann að breytingum á lagaákvæðum um uppreist æru og hvernig flokkur hans Viðreisn stuðlaði að þeim vinnubrögðum við lagabreytinguna sem Pawel nú gagnrýnir. Pawel gerði þessa lagabreytingu að umtalsefni í grein í þessu blaði síðastliðinn föstudag. Þar gerir hann mér upp skoðanir sem ekki eiga við rök að styðjast og segir ekki rétt frá afstöðu minni til þess að leggja fram hálfkarað frumvarp um afnám uppreistar æru haustið 2017.

Björt framtíð sleit fyrirvaralaust ríkisstjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn í skjóli nætur þann 14. september 2017. Þar með var jafn snarlega bundinn endi á framgöngu þeirra mála sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar hugðust leggja fram á haustþingi sem þá var nýhafið. Þar á meðal var breyting á lögum er varðar uppreist æru og óflekkað mannorð.

Um leið og mér barst fyrsta umsóknin um uppreist æru eftir að ég tók við sem dómsmálaráðherra tók ég ákvörðun vorið 2017, áður en gagnlegar umræður hófust um mál frá fyrri tíð, um að stöðva sjálfkrafa afgreiðslu slíkra umsókna í dómsmálaráðuneytinu og hefja allsherjarendurskoðun laga hvað varðaði veitingu á uppreist æru. Þá um sumarið boðaði ég breytingu á lögum þar að lútandi. Breytingin myndi fela í sér að horfið yrði frá þeirri framkvæmd að veita uppreist æru en um leið að tryggt yrði að dæmdir menn öðlist aftur með einhverjum hætti borgaraleg réttindi sem þeir missa við þá flekkun mannorðs sem í refsidómi felst. Ég lagði ávallt áherslu á að þessar breytingar yrðu unnar samhliða.

Við stjórnarslitin ákváðu formenn allra flokka, þ.m.t. Viðreisnar, að leggja fram í sameiningu breytingu á lögum sem kvað aðeins á um afnám uppreistar æru og fengu í þeim tilgangi afnot af þeirri frumvarpsvinnu sem þegar hafði farið fram í dómsmálaráðuneytinu. Ákveðið var að láta það bíða nýrrar ríkisstjórnar að tryggja með lögum að dæmdir menn sem höfðu afplánað refsingu sína gætu sótt aftur borgaraleg réttindi sín. Þetta var miður – eins og ég lýsti í ræðu minni á Alþingi við afgreiðslu málsins þann 26. september 2017: „Ég játa það að mér hefði þótt meiri bragur að því og æskilegra ef það hefði náð fram að ganga, þ.e. ekki bara þetta frumvarp sem hér er til umfjöllunar heldur einnig þær lagabreytingar sem ég hef reifað að þurfi nauðsynlega að fara í ef þetta frumvarp nær fram að ganga. Þetta segi ég í ljósi þeirrar niðurstöðu sem ég komst að í sumar um heppilegustu leiðina að fara við endurskoðun á þessu fyrirkomulagi öllu.“

Það kemur fáum á óvart að borgar­fulltrúinn kýs að gleyma með öllu þætti Viðreisnar í stjórnar­slitunum sem settu málið í uppnám og komu í veg fyrir að ég gæti lagt það fram eins og ég gerði ráð fyrir um sumarið. Það vill nefnilega svo til að ég hafði einmitt gert það sem hann kallar eftir í grein sinni – talað um „nauðsyn þess að fara sér hægt og ígrunda vel“ og „standa vörð um klassíska íhaldssemi í þessum málum“.

En miðnæturhlaup Bjartrar framtíðar frá ríkisstjórnarborðinu ásamt innanmeinum Viðreisnar í kjölfarið varð til þess að boðað var til kosninga. Lagafrumvarp flokksformannanna fékk flýtimeðferð í þinginu nánast án umræðu. Líkt og ég lýsti væntingum um við afgreiðslu frumvarpsins 26. september 2017 hefur vinna við málið haldið áfram í dómsmálaráðuneytinu. „Ég vil að það komi fram hér að ég hef óskað eftir því í dómsmálaráðuneytinu að sú vinna sem þegar er hafin við endurskoðun á allri þeirri löggjöf sem kveður á um óflekkað mannorð haldi áfram og ekkert gefið eftir í þeim efnum þannig að fyrir nýju þingi liggi vonandi einhver vinna sem hægt er að byggja á í framhaldinu.“

Í grein sinni kallar Pawel eftir lagafrumvarpi því sem nauðsynlegt er að til að tryggja dæmdum mönnum aftur réttindi sín eins og kjörgengi. Það er ánægjulegt að segja frá því að Pawel var bænheyrður áður en grein hans birtist því að frumvarp mitt um þetta var lagt fram á Alþingi í síðustu viku eftir að hafa verið til kynningar og umsagnar á opnum samráðsvef stjórnarráðsins í sumar. Engin umsögn barst um málið frá Pawel.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×