Innlent

Nuddari ákærður fyrir nauðgun

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Farið er fram á 1,5 milljón króna í miskabætur.
Farið er fram á 1,5 milljón króna í miskabætur. Getty Images
Nuddari á suðvesturhorninu hefur verið ákærður af héraðssaksóknara fyrir að nauðga skjólstæðingi sínum. Nuddaranum er gefið að sök að hafa í lok september 2010, á þáverandi heimili nuddarans, fróað manni sem var í meðferð hjá honum, án hans samþykkis.

Er nuddarinn í ákæru sagður hafa beitt ólögmætri nauðung en hann hafi misnotað sér það traust sem viðskiptavinurinn bar til hans þar sem hann lá nakinn á nuddbekk ákærða. Er farið fram á 1,5 milljón króna í miskabætur fyrir viðskiptavininn.

Brotið varðar við fyrstu málsgrein 194. grein almennra hegningarlaga sem fjallar um kynferðisbrot. Eru viðurlög allt að sextán ára fangelsi. Til samanburðar fékk annar nuddari tveggja ára fangelsisdóm fyrir tveimur árum fyrir að hafa stungið fingri í leggöng konu sem var viðskiptavinur hjá honum.

Nuddarinn neitar sök í málinu en aðalmeðferð í því fer fram þann 20. nóvember við Héraðsdóm Reykjaness.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×