„Það er eitthvað af brotnum trjám sem er eðlilegt þegar það kemur stór hópur af fólki og gengur yfir svæðið en þetta eru örfá tré þannig að þetta er ekki mikið tjón“, segir Hreinn Óskarsson, sviðsstjóri hjá Skógræktinni og bætir því við að tjónið sé miklu minna miðað við þær lýsingar sem hann og hans fólk hafði fengið.
Hreinn segir að strax sé komin upp hugmynd um að fá utanríkisráðherra og starfsfólk ráðuneytisins til að koma í Þjórsárdal næsta vor og planta eitt hundrað plöntum í stað þeirra sem hermennirnir skemmdu.
„Ég býst við að það verði góðar undirtektir við því og ég efast ekki um að Guðlaugur Þór, utanríkisráðherra reyni að mæta“, segir Hreinn.
En gáfu Hekluskógar leyfi fyrir æfingunni á skógræktarsvæðinu um helgina?
„Það var í rauninni ekki spurt um leyfi heldur var tilkynnt um að það ætti að fara í heræfingu og miðað við lýsingarnir hvernig átti að standa að þessu þá höfðu menn engar áhyggjur að fólkið færi út fyrir veg, en það var sem sagt slegið upp tjaldbúðum og virðast ekki vera miklar skemmdir af því“, bætir Hreinn við.
Fulltrúi frá Varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytinu mætti líka í Þjórsárdal í dag til að kanna með skemmdir á plöntunum.
„Nú ætlum við að ræða betur við skógræktina og sjá hvort það hafi verið eitthvað tjón og ef það er þá bætum við það upp í samstarfi við Bandaríkin“, segir Snorri Matthíasson.
