Körfubolti

50 stig frá Derrick Rose og LeBron tryggði sigurinn af vítalínunni

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Derrick Rose sýndi gamla takta í nótt
Derrick Rose sýndi gamla takta í nótt vísir/getty
NBA körfuboltinn sveik ekki aðdáendur sína í nótt þar sem boðið var upp á dramatík víða í þeim sjö leikjum sem fram fóru en þrír af leikjunum unnust með minnsta mun og tveir þeirra eftir framlengdan leik. 

Það var hins vegar Derrick Rose sem stal fyrirsögnunum með því að skora 50 stig í þriggja stiga sigri Minnesota Timberwolves á Utah Jazz. Mögnuð frammistaða hjá kappanum sem fékk byrjunarliðssæti í kjölfar þess að Jimmy Butler er úti í kuldanum auk þess sem Jeff Teague er fjarri góðu gamni.

Það var framlengt í Brooklyn annars vegar og Chicago hins vegar. Nets hafði betur í framlengingu gegn Pistons og Denver Nuggets vann enn einn leikinn eftir framlengingu gegn Bulls. 

LeBron James skoraði 29 stig þegar LA Lakers lagði Dallas Mavericks með minnsta mun þar sem Luka Doncic sýndi heldur betur snilli sína á lokasekúndunum og var hársbreidd frá því að koma leiknum í framlengingu en James tryggði sigurinn af vítalínunni tveimur sekúndum fyrir leikslok.

Þá átti Domantas Sabonis frábæra innkomu af bekknum í 101-107 sigri Indiana Pacers á New York Knicks í Madison Square Garden. Litháinn skoraði 30 stig á 21 mínútu.

Úrslit næturinnar

Brooklyn Nets 120-119 Detroit Pistons

New York Knicks 101-107 Indiana Pacers

Chicago Bulls 107-108 Denver Nuggets

Minnesota Timberwolves 128-125 Utah Jazz

Golden State Warriors 131-121 New Orleans Pelicans

Los Angeles Lakers 114-113 Dallas Mavericks

Phoenix Suns 90-120 San Antonio Spurs

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×