Fótbolti

Andri Rúnar: Alltaf gaman að eiga afmæli en veit ekki hvort að þeir viti það

Anton Ingi Leifsson skrifar
Andri Rúnar Bjarnason, framherji Helsingborg, var kallaður inn í landsliðið um helgina vegna meiðsla Jóhanns Bergs Guðmundssonar.

Undanfarnar vikur hafa verið góðar fyrir Andra. Hann var markahæsti maður Helsingborg og einnig valinn besti leikmaður liðsins en liðið tryggði sér sæti í deild þeirra bestu í Svíþjóð fyrir tveimur vikum.

„Þessi helgi var helvíti góð. Þetta er búið að vera draumi líkast,“ sagði Andri Rúnar i samtali við Guðmund Benediktsson í Belgíu þar sem liðið er við undirbúning fyrir leikinn gegn heimamönnum. En átti hann von á því að fá kallið í landsliðið?

„Nei, ég átti ekki von á því. Það var óheppilegt að Jóhann Berg meiddist en fyrst að það þurfti einhver að koma inn í staðinn þá er ég ánægður að það sé ég.“

„Þetta er alltaf aftast í hausnum. Það er draumur allra að spila fyrir landsliðið sitt og ég er mjög ánægður með að vera hérna,“ en kappinn á afmæli í dag. Hvernig er að vera afmælisbarnið í hópnum?

„Það er alltaf gaman að eiga afmæli. Ég veit ekki hvort að þeir viti það,” sagði Andri og hló. Hvernig líst honum á verkefnið og býst hann við að fá mínútur í komandi leikjum?

„Þetta er búið að gerast allt svo hratt að ég hef ekki haft tíma til þess að hugsa út í það. Ég kem hingað til að leggja mig 100% fram og vonandi sýna mitt rétta andlit á æfingum. Það er í raun eina sem ég get gert.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×