Innlent

Enn ekkert spurst til meintra PIN-númeraþjófa

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Mennirnir fjórir sem lýst var eftir vegna málsins.
Mennirnir fjórir sem lýst var eftir vegna málsins. Mynd/Lögreglan
Ekkert hefur komið út úr rannsókn á máli fjögurra manna sem grunaðir eru um að hafa stolið háum fjárhæðum af eldra fólki í september síðastliðnum, að sögn yfirlögregluþjóns.

Fyrst var lýst eftir þremur mannanna í september og í október bættist fjórði maðurinn við. Mennirnir eru grunaðir um að hafa stolið greiðslukortum af eldri konum á höfuðborgarsvæðinu og í beinu framhaldi reynt að taka fé út úr hraðbönkum með kortunum. Þá leikur grunur á að mennirnir hafi komist yfir PIN-númer kortanna þegar þau voru notuð í verslunum.

Skúli Jónsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Vísi að ekkert hafi spurst til mannanna. Þá sé ekki vitað hvort þeir séu Íslendingar eða af erlendu bergi brotnir. Hann segir jafnframt að tveir menn hafi verið handteknir vegna málsins en þeir reyndust ekki í hópi hinna fjögurra eftirlýstu, og var sleppt úr haldi.

„Málið er enn þá opið. Og ef einhverjar haldbærar upplýsingar berast þá vinnum við með það, að sjálfsögðu,“ segir Skúli.


Tengdar fréttir

Lögregla lýsir eftir fjórða manninum

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskar eftir að ná tali af mönnunum sem sjá má hér að ofan vegna máls sem hún hefur til meðferðar, og eru þeir vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögreglustöðina á Hverfisgötu 113-115 í Reykjavík í síma 444 1000.

Enn ekkert spurst til þremenninganna

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur enn ekki fundið mennina þrjá sem lýst var eftir nú fyrir helgi. Eins hafa engar ábendingar borist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×