Í gær birtist frétt á vefmiðlinum in.fo en miðillinn greindi frá því að vinstri hornamaðurinn Turið Arge Samuelsen hafi yfirgefið Hauka í Olís-deild kvenna.
Útskýringin sem Turið gaf miðlinum var sú að hún hafi ekki getað lifað á Íslandi vegna vangoldinna launa og yfirgaf því liðið þar sem hún hafði ekki fengið greitt það sem um var samið.
Þorgeir Haraldsson, formaður handknattleiksdeildar Hauka, segir þetta af og frá í samtali við Sindra Sverrisson á vef Morgunblaðsins í gærkvöldi. Þar segir Þorgeir meðal annars:
„Þetta er mesti viðbjóður og lygar sem sagðar hafa verið um okkur, því við höfum staðið við hvert einasta atriði og greitt hverja einustu krónu á nákvæmlega þeim degi sem átti að greiða, og jafnvel fyrr í eitt skiptið vegna peningaskorts hjá henni,“ sagði Þorgeir í viðtalinu.
Hann segir einnig að það hafi verið hún sem hafi ekki staðið við samninginn því hún hafi ekki mætt á eina æfingu hjá þriðja flokki kvenna en Turið átti þar að vera aðstoðarþjálfari.
Þorgeir bætir því við gamla knattspyrnukempan, Uni Arge, sem lék meðal annars með ÍA og Leiftri á seint á síðustu öld, hafi verið maðurinn á bakvið þetta vesen en Uni er er faðir Turið.
„Við erum svo brjáluð yfir þessu. Pabbi hennar, hann Uni, hefur staðið á bakvið þetta allt saman og þetta er það alljótasta sem ég hef átt við. Hrein og klár lygi,“ segir Þorgeir í samtali við Morgunblaðið.
