Þetta segir Guðmundur Andri á Facebook en um er að ræða viðbrögð þingmannsins við nýrri könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands. Þar kom fram að 65 prósent landsmanna telja að margir eða nánast allir 63 þingmenn landsins séu viðriðnir spillingu. Aðeins 2 prósent landsmanna telja að nánast engir þingmenn séu spilltir.
Stofnunin gerði sömu könnun fyrir tveimur árum. Þá var hlutfall þeirra sem töldu nokkra ef ekki alla þingmenn viðriðna spillingu helmingi minna eða 34 prósent.

„Þetta er upp til hópa fólk sem er að reyna að sinna sinni vinnu af samviskusemi - margt með skrýtnar skoðanir vissulega, en það eitt og sér gerir manneskju ekki spillta, svona eins og ég skil það orð. Satt að segja stendur mér stuggur af þessari rótgrónu andúð á þinginu og því fólki sem þar starfar, held að við höfum vonda reynslu af andþingræðislegum stefnum á síðustu öld.“
Uppfært klukkan 14:20
Fyrirsögn var breytt eftir athugasemd frá þingmanninum. Hún var Kemur ekki auga á spillingu hjá kollegum sínum. Þingmaðurinn taldi þá fyrirsögn ekki lýsa færslu hans réttilega. Hann þyrfti að vera sjóndapur ef hann kæmi ekki auga á einhverja spillingu en hún væri ekki almenn.