Stjórnvöld í Indónesíu tilkynntu í nótt að svarti kassinn svokallaði úr farþegaþotu Lion Air sem fórst undan ströndum Jakarta í október er fundinn.
Svarti kassinn geymir raddupptökur flugmannanna og ætti að geta varpað nánara ljósi á hvað fór úrskeiðis þegar vélin skall í sjóinn skömmu eftir flugtak. Flugstjórinn heyrðist síðast biðja um leyfi til að snúa aftur inn til lendingar en síðan rofnaði allt samband við vélina.
Allir um borð, 189 manns, létu lífið og rannsókn bendir til að bilun hafi orðið í mælum vélarinnar sem flugmennirnir hafi ekki kunnað að bregðast við.
Flugritinn var grafinn á átta metra dýpi á hafsbotni og er nokkuð laskaður að sögn talsmanns hersins, en óljóst er hvort upptökubúnaðurinn hafi orðið fyrir skemmdum.
Hinn flugritinn, sem geymir tölulegar upplýsingar úr mælum vélarinnar, fannst skömmu eftir slysið.
Svarti kassinn fundinn
Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
