Hópur öfga-hægrisinnaðra Pólverja hefur safnast saman fyrir utan Auschwitz-safnið í suðurhluta Póllands, þar sem áður stóðu útrýmingarbúðir nasista, til þess að sýna fram á óánægju sína með pólsk stjórnvöld.
Hópurinn telur tæplega 50 pólska þjóðernissinna sem standa fyrir utan safnið og veifa þjóðfána Póllands. Segist hópurinn vilja komast inn á safnið til þess að koma fyrir blómakransi í tilefni þess að í dag eru 74 ár liðin frá því að sovéski herinn tók búðirnar yfir og frelsaði um 7500 fanga.
Forsvarsmaður hópsins, Piotr Rybak, sakar pólsk stjórnvöld um að minnast árlega eingöngu þeirra gyðinga sem týndu lífi í Helförinni, en segir þau skauta fram hjá minningu þeirra Pólverja sem létust. Því hafi hópurinn tekið ákvörðun um að safnast saman fyrir utan Auschwitz og mótmæla.
Þessi fullyrðing hópsins er þó ekki á rökum reist. Árleg minningarathöfn um þá sem nasistar myrtu í Auschwitz tekur til allra fórnarlamba Helfararinnar, óháð trú, þjóðerni eða kynþætti.
Um 1,1 milljón týndi lífinu í Auschwitz, langstærstur hluti þeirra gyðingar. Pólverjar, Rómafólk og sovéskir stríðsfangar voru einnig meðal þeirra sem myrtir voru af nasistum í búðunum á árunum 1940-1945.
Mótmæla minningarathöfn um fórnarlömb nasista í Auschwitz

Tengdar fréttir

Ungt fólk verði að gera sér grein fyrir grimmdarverkum forfeðra sinna
Kanslari Þýskalands sagði að ungt fólk sem sé að vaxa úr grasi í dag verði að gera sér grein fyrir þeim grimmdarverkum sem forfeður þeirra voru færir um að fremja.