Erlent

Kína lokaði fyrir þúsundir smáforrita

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Trúlega lítur lyklaborð kínverskra ritskoðenda þó ekki út eins og á myndinni.
Trúlega lítur lyklaborð kínverskra ritskoðenda þó ekki út eins og á myndinni. Nordicphotos/Getty
Veraldarvefsstofnun Kína (CAC) tilkynnti í gær að fyrirtækið hefði að undanförnu eytt sjö milljónum innleggja á veraldarvefnum og nærri 10.000 öppum. Þetta var gert í átaki gegn „óásættanlegum og skaðlegum“ upplýsingum sem hófst í mánuðinum. Aukinheldur hefur verið lokað fyrir 733 vefsíður.

Ritskoðun á kínverska veraldarvefnum er ekki nýtt fyrirbæri. Lokað er fyrir fjölda þeirra vefsíðna sem Vesturlandabúar venja komur sínar á. Talað er um „Vefkínamúrinn“ (e. Great Firewall of China) í þessu samhengi. Athugaverðasta dæmi undanfarinna missera var ef til vill þegar efni tengt hinum geðþekka Bangsímon var bannað þar sem Kínverjar höfðu dregið dár að forsetanum Xi Jinping með því að líkja honum við teiknimyndabjörninn vinsæla.

Tæknirisinn Tencent, þekkt fyrri tölvuleiki á borð við League of Legends og á að auki hluta í Fortnite, fékk slæma útreið í yfirlýsingu CAC í gær. Kínverska stofnunin sagðist hafa lokað fyrir fréttaappið Tiantian Kuiabao vegna þess að þar hefði „groddalegum og lágkúrulegum upplýsingum sem skaða vistkerfi veraldarvefsins“ verið dreift.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×