Innlent

Ákærður lögreglumaður var að elta mann sem gekk berserksgang á gröfu

Birgir Olgeirsson skrifar
Lögreglumaðurinn er sagður ekki hafa gætt lögmætra aðferða þegar bíllinn var þvingaður af veginum.
Lögreglumaðurinn er sagður ekki hafa gætt lögmætra aðferða þegar bíllinn var þvingaður af veginum. Vísir/Vilhelm
Mál sem lögreglumaður er ákærður fyrir á Suðurlandi tengist manni sem gekk berserksgang með tveggja tonna gröfu við heimilið sitt í maí í fyrra. Lögreglumaðurinn er ákærður fyrir að hafa ekki gætt lögmætra aðferða þegar hann ók þrívegis á vinstra afturhorn bifreiðar mannsins til að stöðva för hans á Þjórsárdalsvegi. 

Á Facebook-síðunni Lögga á vakt er fjallað um málið í dag en þar er vísað í færslu frá lögreglunni á Suðurlandi frá þrettánda maí í fyrra sem sagði frá útkalli lögreglu í Biskupstungum vegna ölvaðs manns sem þar gekk berserksgang með tveggja tonna gröfu við heimili sitt.







Í tilkynningu lögreglu kom fram að á vettvangi mættu lögreglumenn manninum á bíl og voru honum gefin stöðvunarmerki sem hann sinnti ekki heldur ók á undan lögreglu áleiðis eftir Skálholtsvegi og upp í Þjórsárdal. 

Sagði í tilkynningu lögreglunnar að reynt hafi verið að komast fram fyrir bifreið mannsins en maðurinn þvingaði lögreglubifreiðina út fyrir veg. Í ljósi ástands mannsins, aksturslags og þeirrar almennu umferðar sem þarna á leið um var ákveðið að beita lögreglubifreiðinni til að stöðva akstur mannsins. Var það gert á Þjórsárdalsvegi en við það valt bifreið mannsins.

Samkvæmt ákærunni var lögreglumaðurinn á 95 kílómetra hraða á klukkustund þegar hann ók þrívegis á bifreið mannsins með þeim afleiðingum að hún snerist á veginum, fór út af honum, valt tvær veltur og endaði á réttum kili. Hlaut maðurinn brot á sjöunda hálslið og tíu sentímetra langt sár á hnakka sem var opið inn að höfuðkúpu. 

Maðurinn sem um ræðir skipaði á þessum tíma annað sæti á lista Nýs afls fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í Bláskógabyggð en ákveðið var að víkja honum af lista í kjölfar málsins. 


Tengdar fréttir

Mannlegur harmleikur í Bláskógabyggð

Ákvörðun verður tekin í kvöld um framboð manns sem skipar annað sætið á lista Nýs afls í Bláskógabyggð fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 26. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×