Fótbolti

Svartir tennisboltar stöðvuðu fótboltaleik í þýsku deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Svörtum tennisboltum rigndi yfir leikmenn og dómara.
Svörtum tennisboltum rigndi yfir leikmenn og dómara. Getty/Alex Grimm
Borussia Dortmund tapaði mikilvægum stigum í toppbaráttunni í gær í markalausu jafntefli á móti botnliði Nürnberg en það var þó eitthvað annað en fótbolti sem stal senunni á þessum leik.

Tvisvar þurfti nefnilega að stöðva leikinn vegna þess að áhorfendur köstuðu svörtum tennisboltum inn á völlinn í mótmælaskini.

Áhorfendur voru þarna að mótmæla leiktímanum en það féll ekki í kramið hjá þýsk knattspyrnuáhugafólki að spila leiki á mánudagskvöldum.

Harm Osmers, dómari leiksins, fór með liðin af velli á meðan tennisboltarnir voru fjarlægðir. Sökudólgarnir voru stuðningsmenn heimaliðsins í Nürnberg.

Þýska deildin mun hætta með þennan leiktíma eftir 2020-21 tímabilið þannig að það gætu verið fleiri svartir tennisboltar á leiðinni inn á völlinn á næstum mánudagskvöldum.





Borussia Dortmund hefur verið að gefa eftir en þetta var fimmti leikurinn í röð í öllum keppnum þar sem liðið nær ekki að vinna.

Bayern München, sem mætir Liverpool á Anfield í kvöld, er nú aðeins þremur stigum á eftir Dortmund eftir sigur liðsins á Augsburg um helgina.

Dortmund hefur ekki skorað mark í síðustu tveimur leikjum sínum og er þetta í fyrsta sinn síðan í mars 2015 sem það gerist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×