Erlent

„Við getum ekki skilið hann eftir þarna“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Brak vélarinnar á hafsbotni.
Brak vélarinnar á hafsbotni. AP/AAIB
Fjölskylda David Ibbotson, flugmannsins sem talið er að hafi látist er hann flaug knattspyrnumanninum Emilio Sala til Bretlands, leitar nú allra leiða til þess að finna lík hans. Guardian greinir frá.

David Ibbotson var að fljúga með Sala frá Nantes til Cardiff 21. janúar síðastliðinn þegar vélin hrapaði rétt hjá Guernsey í Ermasundi. Búið er að finna brak vélarinnar og í því fannst lík Sala, Ibbotson er þó enn saknað.

Meðal þess sem fjölskyldan stendur fyrir er söfnun til að safna fjármagni svo leit geti hafist að nýju en henni var hætt eftir að lík Sala fannst. Fjölskyldan hefur hafið söfnun á vefsíðunni GoFundMe þar sem safnast hafa um 150 þúsund pund, um 23 milljónir. Markmiðið er að safna 300 þúsund pundum, um 45 milljónum en stjörnur á borð við Kylian Mpabbe og Gary Lineker hafa stutt söfnunina með háum fjárhæðum.

„Við þurfum þessa hjálp,“ sagði Nora Ibbotson, eiginkona David, er hún ræddi missinn og söfnunina í sjónvarpsþættinum Good Morning Britain í morgun.

Vill hún að leitarkafbátur samskonar þeim sem fann brakið af vélinni verður sendur aftur á staðinn til að leita að líki eiginmanns hennar í grennd við brakið. Það myndi létta fjölskyldunni áfallið mikið að vita að allt hafi verið reynt til þess að finna Ibbotson.

„Bara það að fara þarna aftur niður og leita í síðasta skipti. Leita almennilega. Ég veit að aðstæður þarna eru erfiðar, þetta er hættulegt hafsvæði en þá myndum við vita að allt hafi verið reynt,“ sagði Ibbotson.

Hún segir undanfarnar vikur hafa verið erfiðar fyrir fjölskylduna en við hlið Noru í viðtalinu sat 21 árs gömul dóttir þeirra, Danielle. Hún sagðist hafa neitað að trúa því að faðir hennar hafi lent í flugslysinu, þegar hún fékk fregnir af því.

Greindi Danielle frá því að hún hafi ítrekað reynt að hringja í föður sinn eftir að hún fékk fregnirnar án árangurs.

„Ég veit að leitin gæti tekið langan tíma en ég vil ekki að þetta endi svona,“ sagði Danielle. Móðir hennar tók í sama streng.

„Við getum ekki skilið hann eftir þarna.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×