Erlent

Dalai Lama lagður inn á sjúkrahús

Hallgerður Kolbrún E Jónsdóttir skrifar
Dalai Lama.
Dalai Lama. Getty/Pallava Bagla
Dalai Lama, andlegur leiðtogi Tíbeta var lagður inn á spítala í Nýju Delí í dag vegna sýkingar í brjósti. Aðstoðarmaður hans sagði ástand hans vera stöðugt.

Hinn 83 ára gamli munkur flúði til Indlands snemma árs árið 1959 eftir uppreisn gegn stjórn Kína sem mistókst og hefur síðan búið í útlegð í norður Indlandi.

Í samtali við Reuters sagði ritari hans, Tenzin Taklha, hann hafa fundið fyrir óþægindum og verið flogið til Delhi til að sækja læknisaðstoð, en þar hafi læknar greint hann með sýkingu í brjósti og hljóti hann nú læknismeðferð við því næstu daga.

Samkvæmt frétt Reuters búa allt að 100.000 Tíbetar í Indlandi og hefur stór hluti þeirra áhyggjur af því að sjálfstæðisbarátta Tíbeta muni enda með Dalai Lama.

Hann sagði í samtali við Reuters í síðasta mánuði að mögulegt væri að eftir andlát hans myndi holdtekja hans finnast á Indlandi, en einnig varaði hann við því að eftirmaður sem tilnefndur yrði af Kína yrði tekinn til greina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×