Körfubolti

Brooklyn hafði betur gegn besta liði deildarinnar

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Brooklyn vann dýrmætan sigur
Brooklyn vann dýrmætan sigur vísir/getty
Tveir leikir fóru fram í NBA deildinni í körfubolta í nótt. Besta lið austurdeildarinnar, Milwaukee Bucks, tapaði fyrir Brooklyn Nets og Philadelphia 76ers hafði betur gegn Chicago Bulls.

Í gærnótt tryggði Bucks sér efsta sætið í austurdeildinni og í nótt voru heimamenn án stórstjörnunnar Giannis Antetokounmpo sem er að glíma við meiðsli á kálfa.

Brooklyn Nets er hins vegar í baráttu um að komast í úrslitakeppnina og gæti þessi sigur reynst þeim mikilvægur. Staðan var jöfn þegar um ein og hálf mínúta var eftir af leiknum og Joe Harris setti niður þriggja stiga skot. D'Angelo Russell tryggði svo 133-128 sigurinn með sniðskoti.

Gestirnir settu alls 19 þriggja stiga skot í leiknum og fóru átta leikmenn í tveggja stafa tölu í stigaskori.

Nets er nú í sjötta sæti austurdeildarinnar, fyrir ofan Orlando Magic og Detroit Pistons sem eru þó ekki langt undan. Brooklyn á hins vegar betri innbyrðisstöðu á bæði lið.

Í Chicago fóru gestirnir í Philadelphia 76ers með öruggan sigur á heimamönnum 116-96.

Joel Embiid var með 20 stig og 10 fráköst og JJ Redick setti 23 stig. Þetta var fimmtugasti sigur Philadelphia á tímabilinu. Philadelphia er í þriðja sæti austurdeildarinnar og er öruggt í úrslitakeppnina en Bulls á ekki möguleika á henni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×