Þjóðkirkjan telur söfnuði sína hafa greitt á annan tug milljarða króna af sóknargjöldum sínum til ríkisins vegna skerðingar ríkis á fjárframlögum til þeirra ár hvert. Við það verði ekki unað og telur kirkjan framferði ríkisvaldsins siðlaust.
Samninganefnd ríkisins og þjóðkirkjunnar hefur síðustu mánuði unnið að samningagerð án þess að niðurstaða hafi náðst að fullu.

Kirkjan segir að fjárlagafrumvarp þessa árs hafi síðan aukið þetta misvægi. Þingið ákvað að lækka sóknargjald til safnaða um sjö krónur en hækka innheimt sóknargjald um 93 krónur. Þjóðkirkjan vill meina að ríkið hafi því tekið 223 milljónum króna meira frá söfnuðum kirkjunnar en árin áður.
„Sá gjörningur fjármála- og efnahagsráðuneytisins að leggja fram tillögu við 3. umræðu um frumvarp til gildandi fjárlaga sem hefur í för með sér 223 miljóna króna aukningu á skerðingu greiðslna til safnaða þjóðkirkjunnar frá fyrra ári lýsir viðhorfi sem endurspeglar ekki mikinn samningsvilja í málinu en þessi nýjasta skerðing sóknargjaldanna gerir ekkert annað en að hækka samningskröfu kirkjunnar sem henni nemur. Það er síðan áleitin spurning hvort um hafi verið að ræða upplýsta ákvörðun Alþingis,“ segir í minnisblaðinu.

Á þingi er einnig starfrækt svokölluð samstarfsnefnd Alþingis og þjóðkirkjunnar og hafa gögn verið send samstarfsnefndinni vegna samningagerðar ríkis og kirkju.
Fréttablaðið hefur óskað eftir fundargerðum samstarfsnefndar þingsins en án árangurs.
Jörundur Kristjánsson, forstöðumaður forsetaskrifstofu, segir í svari fyrir hönd þingsins að fundargerðir samstarfsnefndarinnar séu ekki til.
„Hvað varðar fyrirspurn um fundargerðir er því til að svara að ekki eru haldnar formlegar fundargerðir þar eð samstarfsnefndin er fyrst og fremst vettvangur til upplýsingamiðlunar og samtals milli fulltrúa Alþingis og þjóðkirkjunnar þar sem formlegar ákvarðanir eru ekki teknar,“ segir í svari Jörundar.