Körfubolti

Harden bað um sanngirni í dómgæslu eftir tapið í leik eitt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
James Harden mótmælir dómi.
James Harden mótmælir dómi. AP/David J. Phillip
Golden State Warriors vann 104-100 sigur á Houston Rockets í spennuleik í úrslitakeppni NBA í nótt en leikurinn endaði á því að Chris Paul var hent út í húsi fyrir að mótmæla því að ekki var dæmt þegar James Harden klikkaði á lokaskoti Rockets-liðsins. Það kom því ekkert á óvart að dómararnir hafi verið til umræðu eftir leikinn.

James Harden og félagar í liði Houston Rockets voru nefnilega allt annað en sáttir með dómgæsluna í þessum fyrsta leik sínum á móti Golden State Warriors í undanúrslitum vestursins í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta.





Liðin hafa mæst oft í úrslitakeppninni á síðustu árum og eins og áður þá ganga leikmenn Golden State Warriors eins langt og þeir komast við að reyna að stoppa James Harden. Að þessu sinni virtust þeir komast margoft upp með það að stíga undir James Harden í þriggja stiga skotunum.

Samkvæmt James Harden og þjálfaranum Mike D'Antoni þá viðurkenndu dómararnir í hálfleik að þeir höfðu fjórum sinnum misst af því þegar Klay Thompson, leikmaður Golden State Warriors, hoppaði undir Harden í þriggja stiga skoti. Það gerðist síðan aftur í lokaskotinu en þá var það Draymond Green sem fór undir Harden.

„Ég ætla að reyna að vera eins kurteis og ég get því ég vil ekki gefa þeim peninginn. Ég vil miklu frekar að mín góðgerðasamtök njóti góðs af peningunum mínum,“ sagði Mike D'Antoni eftir leik. „Dómararnir komu inn í sal eftir hálfleikinn og viðurkenndu að þeir höfðu misst af þessu. Þeir sögðu mér það. Þeir misstu af fjórum villum. Það eru tólf vítaskot. Það verður að hafa það. Þeir eru að gera eins vel og þeir geta,“ sagði Mike D'Antoni.





James Harden var líka spurður út í dómgæsluna en hann tók fjórtán víti í leiknum í nótt og skoraði alls 35 stig. Aðeins 4 af 16 þriggja stiga skotum hans fóru hins vegar rétta leið.

„Ég vil bara fá sanngirni í dómgæslunni og að þeir fari eftir reglunum. Ég bið ekki um meira og þá get ég sætt við mig útkomuna,“ sagði James Harden sem klikkaði á þriggja stiga skoti 7,4 sekúndum fyrir leikslok en hann hefði þá getað jafnað metin.

Harden komst eins og áður sagði fjórtán sinnum á vítalínuna en þá aðeins einu sinni eftir að brotið var á honum í þriggja stiga skoti. Það er hætt við því að dómarar næsta leiks muni fylgjast gaumgæfilega með því hvort að leikmenn Golden State fari undir Harden í þriggja stiga skotunum.





Chris Paul fékk tvær tæknivillur fyrir að mótmæla því að James Harden fékk ekki villu á leikmenn Golden State í þriggja stiga skoti. Seinna atvikið var á lokasekúndunum og var Paul þá sendur í sturtu.

Harden rifjaði það líka upp þegar Kawhi Leonard meiddist illa í leik eitt á móti Golden State í úrslitakeppninni 2017 þegar Zaza Pachulia fór undir hann og Leonard lenti á fætinum hans og tognaði illa.

„Við vitum öll hvað gerðist hjá Kawhi fyrir nokkrum árum. Svona atvik getur breytt heilli seríu. Þetta er bara einfalt. Dæmið leikinn eins og stendur í reglunum,“ ítrekaði Harden.







NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×