Í ársreikningi borgarinnar kemur fram að rekstrarniðurstaða A-hluta hafi verið jákvæð um 4,7 milljarða króna en áætlun gerði ráð fyrir að hún yrði jákvæð um rétt rúmlega 4 milljarða. Betri rekstrarniðurstaða er sögð skýrast einkum af 299 milljóna króna hærri skatttekjum en áætlanir gerðu ráð fyrir. Auk þess var gjaldfærsla vegna lífeyrisskuldbindinga næstum 300 milljónum lægri en áætlað var.
Þá var rekstrarniðurstaða samstæðu Reykjavíkurborgar jákvæð um 12,3 milljarða en áætlanir höfðu gert ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu um 17,7 milljarða. „Helstu frávik frá áætlun samstæðu má rekja til lægri tekjufærðra matsbreytinga fjárfestingaeigna Félagsbústaða og hærri fjármagnsgjalda samstæðunnar vegna gangvirðisbreytinga innbyggðra afleiða í raforkusamningum hjá Orkuveitu,“ segir í útskýringu borgarinnar.
Haft er eftir Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra, að honum þyki niðurstaðan ánægjuleg í ljósi þess að borgin sé að skila afgangi þriðja árið í röð.

„Við lækkuðum álagningarhlutfall fasteignagjalda um 10% auk þess að gefa eldri borgurum og öryrkjum sérafslátt. Við höfum einnig verið með stórátak í malbikun gatna og lagningu nýrra hjólastíga í borginni. Í ljósi alls þessa fögnum við niðurstöðunni sérstaklega – því uppgjörið sýnir borg sem hefur metnað fyrir framúrskarandi þjónustu, leggur áherslu á góða innviði og forgangsraðar í þágu velferðarmála og skólamála,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Rekstur Reykjavíkurborgar skiptist í A-hluta og B-hluta. Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum. Um er að ræða Aðalsjóð, sem heldur utan um rekstur fagsviða og Eignasjóð.
Til B-hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu borgarinnar, en rekstur þeirra er að stofni til fjármagnaður með þjónustutekjum. Fyrirtækin eru: Orkuveita Reykjavíkur, Faxaflóahafnir sf., Félagsbústaðir hf., Íþrótta- og sýningahöllin hf., Malbikunarstöðin Höfði hf., Slökkvilið höfuðborgar¬svæðisins bs., Sorpa bs. og Strætó bs, auk Aflvaka hf.
Ársreikning borgarinnar má nálgast hér