Handbolti

Kaffispjall um lífið og tilveruna og von um perutertu kveikti í Sigurbergi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
ÍBV jafnaði undanúrslitaeinvígi sitt á móti Haukum, 2-2, með þriggja marka sigri í fjórða leik liðanna í Vestmannaeyjum í gær, 30-27, og verður því oddaleikur um sæti í lokaúrslitunum á laugardaginn.

Eftir að vera gríðarlega ólíkur sjálfum sér og skora aðeins eitt mark í þremur skotum og gefa ekki stoðsendingu í leik þrjú á Ásvöllum sem ÍBV tapaði var allt annað að sjá Sigurberg Sveinsson, stórskyttu Eyjamanna, í leiknum í gær.

Haukamaðurinn uppaldi var gömlu félögunum erfiður en hann skoraði sex mörk í átta skotum og gaf eina stoðsendingu en hann tók leikinn yfir þegar mest á reyndi í seinni hálfleik.

Sigurbergur var sammála því að hafa ekki verið góður í leik þrjú þegar að Jóhann Gunnar Einarsson, sérfræðingur Seinni bylgjunnar, fór yfir muninn á frammistöðu hans á milli leikja en hvernig komst Sigurbergur aftur í gang?

„Málið er að ég fékk mér kaffi með Erlingi [Richardssyni, þjálfara ÍBV] í gær þar sem að við fórum yfir lífið og tilveruna. Oft er það bara nóg. Aðeins að núllstilla sig og koma inn í leikinn með ferskan huga. Ég veit alveg hvað ég get og ég kýldi bara á þetta,“ sagði Sigurbergur.

Búið er að lofa Sigurbergi sigurlaunum ef Eyjamenn standa uppi sem sigurvegarar í oddaleiknum á Ásvöllum á laugardaginn.

„Ég fæ perutertu ef við vinnum á laugardaginn,“ sagði Sigurbergur en Jóhann Gunnar vildi vita hvort það væri hefðbundin með niðursoðnum perum. „Já, þetta er gamli skólinn,“ sagði Sigurbergur Sveinsson.

Allt spjallið við Sigurberg má sjá hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×