Handbolti

Karlalið Vals hafa tapað öllum leikjum sínum síðan kvennalið félagsins unnu titlana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Handbolta- og körfuboltalið Vals í kvennaflokki unnu bæði þrefalt í vetur.
Handbolta- og körfuboltalið Vals í kvennaflokki unnu bæði þrefalt í vetur. Mynd/Fésbók/Valur Körfubolti
Aprílmánuður endaði frábærlega á Hlíðarenda en það hefur minna af frétta af Valsliðunum í maí. Nú síðast var Valsliði sópað í sumarfrí á Selfossi í gærkvöld.

Helgin 27. og 28. apríl var afar ánægjuleg fyrir Valsmenn sem eignuðust þá Íslandsmeistara tvo daga í röð.

Handbolta- og körfuboltalið kvenna hjá Val skrifuðu nýjan kafla í söguna með því að vinna bæði þrefalt í vetur.

Körfuboltaliðið tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn laugardaginn 27. apríl og handboltaliðið vann sinn Íslandsmeistaratitil sunnudaginn 28. apríl. Bæði liðin unnu alla þrjá leiki sína í lokaúrslitum og handboltaliðið tapaði ekki leik í allri úrslitakeppninni.

Það er samt ekki hægt að sjá að þessi sigurhátíð Valskvenna hafi farið vel í karlalið félagsins. Fótbolta- og handboltalið Vals í karlaflokki hafa nefnilega tapað öllum fimm leikjum sínum síðan þá.

Handboltaliðið Vals lét sópa sér út úr úrslitakeppninni á Selfossi í gær og fótboltaliðið hefur tapað tveimur síðustu leikjum sínum. Íslandsmeistarar Vals eru bara með 1 stig í 9. sæti í Pepsi Max deildinni og bikarsumarið endaði strax í fyrsta leik með tapi á heimavelli í 32 liða úrslitunum.

Eina stig Valsmenna í Pepsi Max deild karla til þessa kom í 3-3 jafntefli á móti Víkingum á Hlíðarenda en sá leikur fór fram föstudagskvöldið 26. apríl eða daginn fyrir sigurhátíð kvennaliðanna.

Kvennalið Vals í fótbolta vann aftur á móti sinn fyrsta leik þegar liðið vann flottan 5-2 sigur á Þór/KA í fyrstu umferð Pepsi Max deildar kvenna.

Hér fyrir neðan má sjá leiki karlaliða Vals eftir þessa miklu sigurhelgi kvennaliðanna í lok apríl.

Karlaliðið í handbolta: 35-34 tap fyrir Selfossi í úrslitakeppni Olís deildarinnar 30. apríl

Karlaliðið í fótbolta: 2-1 tap fyrir FH í Mjólkurbikarnum 1. maí

Karlaliðið í handbolta: 32-31 tap fyrir Selfossi í úrslitakeppni Olís deildarinnar 3. maí

Karlaliðið í fótbolta: 1-0 tap fyrir KA í Pepsi Max deildinni 5. maí

Karlaliðið í handbolta: 29-26 tap fyrir Selfossi í úrslitakeppni Olís deildarinnar 6. maí

5 leikir og 5 töp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×